Krónan: seljum lax bæði úr sjókvíaeldi og landeldi

Vara frá Ísfirðingi í stórverslun í Reykjavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ásta Sigríður Fjelsted framkvæmdastjóri Krónunnar segir að fyrirtækið selji laxaafurðir úr sjókvíaeldi og sé meðal annars að hefja sölu á vörumerkinu Ísfirðingi frá Fiskvinnslu Hrefnu á Flateyri sem vinnur úr eldislaxi frá Vestfjörðum.

Ásdís Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í Icelandic Wildlife Fund segir í aðsendri grein á visir.is, sem birtist á miðvikudaginn,  að

„Við vekjum athygli þeirra sem vilja hafa lax í matinn að margar fiskbúðir og sumar stórverslanir selja aðeins lax úr landeldi.“

og birtist svo mynd af kassakvittun frá Krónunni með textanum að Krónan selji lax úr landeldi við hliðina á textanum úr greininni að „sumar stórverslanir selja aðeins lax úr landeldi.“

Þessi samtenging er ekki sannleikanum samkvæmt eins og framkvæmdastjóri Krónunnar staðfestir. Fyrirtækið selur vörur úr sjóeldi líka.

Ásta Sigríður segir að lax frá Eðalfiski sé pakkaður fyrir Krónuna og merktur landeldi enda upprunninn úr því eldi.

Hún segir mikilvægt að upplýsa neytendur um innihald vörunnar og að það sé á ábyrgð framleiðenda merkja hana. En Krónan selji hvort tveggja, það sé neytenda að velja.

 

DEILA