Knattspyrnan: Hörður vann lokaleikinn 11:1- Sigurður Arnar skoraði 7 mörk

Frá leik Harðar við Ými í síðasta mánuði á Skeiðisvellinum í Bolungavík. Ýmir vann og komst áfram. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hörður á Ísafirði lék síðan leik sinn í 4. deildinni í sumar í riðli C á laugardaginn á Olísvellinum á Ísafirði.

Það var Knattspyrnufélagið Miðbær Reykjavík, KM, sem kom í heimsókn. Skemmst er frá því að segja að 101 Reykjavík gerði enga frægðaför vestur og Hörður gjörsigraði þá með 11 mörkum gegn aðeins einu.

Sigurður Arnar Hannesson gerði hvorki meira né minna en sjö mörk í leiknum. Hin mörkin gerðu Felix Rein Grétarsson, Guðmundur Páll Einarsson, Davíð Hjaltason og Hreinn Róbert Jónsson.

Það er fáheyrt að leikmaður nái því að gera sjö mörk í einum og sama leiknum eins og Sigurður Arnar gerði.

Hörður lauk keppni í 4. sæti riðilsins með 34 stig. Liðin sem komust áfram í keppninni um sæti í 3. deild voru Álftanes og Ýmir.

 

 

DEILA