Í hvern eiga Vestfirðingar að hringja?

Einhversstaðar segir að þolinmæði sé dyggð og ef svo er þá held ég að Vestfirðingar séu heimsmeistarar í þolinmæði. Þetta varð ég rækilega var við í síðustu heimsókn minni þangað þegar ég fékk að upplifa á eigin skinni hve fjarskipti eru þar enn ótraust og ónóg. Ég rak mig á að víða er lítið eða ekkert farsímasamband, hvort sem um er að ræða talsamband eða netsamband. Það er ekki einu sinni svo gott að samband sé öruggt á helstu þjóðvegum, hvað þá á öðrum vegum eða heima á sveitabæjum.

 

Þá vita Vestfirðingar að þegar rafmagn fer af í vondum vetrarveðrum er ekki tryggt að þessi símakerfi hafi varaafl nema skamma stund. Þannig hafa komið upp varasamar aðstæður í slæmum veðrum að vetri þegar rafmagn fer af stórum svæðum. Á sama tíma hættir heimasíminn að virka, en mjög víða er búið að slökkva á gamla koparvírnum fyrir heimasíma sem ekki þurftu sértengingu við rafmagn heimila til að virka.

 

Þrátt fyrir hátimbraða markmiðssetningu hefur stjórnvöldum ekki tekist að ljúka ljósleiðaravæðingu þéttbýlissvæða. Þar bendir hver á annan. Síminn segir að eftirlitsstofnanir hafi ekki komið fram með neinar tillögur, forstjóri Fjarskiptastofu segir stjórnvöld ekki hafa stigið til jarðar með það hvort um sé að ræða markaðssvæði eða ekki, og ráðherra fjarskiptamála telur að skortur á samkeppni milli fjarskiptafyrirtækja geti verið hluti af skýringunni eins og bent hefur verið á í fjölmiðlum.

 

Staðreyndin er sú að 13 þúsund staðföng á þéttbýlissvæðum eiga enn ekki kost á ljósleiðaratengingu og þar er hlutur Vestfirðinga sýnu verstur. Undarlegast er að lesa að ríkissjóði okkar Íslendinga er meinað að niðurgreið uppbyggingu á samkeppnismarkaði í ljósi regluverks EES-réttar um ríkisstyrki! Í kerfinu eru menn að velta fyrir sér hvort það séu „markaðslegar forsendur fyrir uppbyggingu.“ Það er óljóst hvort þetta séu markaðssvæði eða ekki, segja embættismenn. Að hugsa sér ruglið! Er ekki tímabært að Vestfirðingar fái stjórnmálamenn sem treysti sér til að rjúfa þessa kyrrstöðu?

Sigurður Páll Jónsson,alþm.

DEILA