Hugleiðing um innviðauppbyggingu vegna laxeldis

Allflestir Vestfirðingar bíða nú fregna af því hvort og hvar nýtt laxasláturhús muni rísa. Margar flökkusögur eru í gangi og lítið gefið upp ennþá frá herbúðum laxaherranna. Ljóst er að laxeldið er komið til að vera og ekkert bendir til annars en að á Vestfjörðum verði framleidd hátt að 100 þús tonnum innan 10 ára. Afköstin á Bíldudal verða ekki aukin enn frekar og komið er að þeim tímapunkti að nauðsynlegt er að fara í stórar og miklar fjárfestingar til framtíðar. Hér er sett fram hugleiðing leikmanns um forsendur fyrir slíkri uppbyggingu.

Það virðist liggja fyrir að byggja eigi upp eitt risa sláturhús sem tekur á móti lifandi laxi frá öllum eldissvæðum Vestfjarða. Ef þetta verður niðurstaðan er ég ansi hræddur um að rekstraraðilum muni koma ýmislegt á óvart. Öll flutningsmeðferð (dæling, hár þéttleiki) stressar laxinn afar mikið. Við mjög lágan sjávarhita verður álagið of mikið fyrir hjarta og blóðkerfi laxsins. Það mun koma í ljós að ekki er mögulegt að halda laxi lifandi eftir dælingu og flutning  yfir vetrartímann, þegar sjávarhitinn er undir 2-3°C. Afar mikilvægt er að geta geymt lax lifandi eftir flutning af m.a. tveimur ástæðum; a) mikilvægt er að laxinn sé rólegur og stresslaus þegar slátrun fer fram ef tryggja á hámarks sláturgæði b) ekki er í boði að láta válind vetrarveður koma í veg fyrir örugga afhendingu afurða. Nauðsynlegt er að halda flutningstíma í lágmarki og vandséð að leysa verkefnið án þess að taka mið af þeirri staðreynd. Að mínu viti er útilokað að leysa málið með því að byggja upp slíka þjónustu á Snæfellsnesi, eins og heyrst hefur fleygt í þessari umræðu, hvort heldur sem laxinn er fluttur lifandi eða dauður.

Sláturhús sem á að afkasta 100 þús tonnum á ári þarf að geta slátrað allt að 400 tonnum á sólarhring. Til að slátra svo miklu magni í hátæknihúsi þarf amk 200 starfsmenn, sem skiptast á tvær vaktir. Hér þarf að skoða málið í ljósi reynslunnar. Í dag er meginhluti starfsmanna á Bíldudal ráðinn í gegnum starfsmannaleigur. Áhersla er að nýta ódýrt vinnuafl og borga sem allra minnst af sköttum og skyldum. Ef dvöl erlendra starfsmanna hérlendis er skemmri en 183 dagar á hverju ári þá greiðir starfsmaður ekki skatta hérlendis – aðeins í heimalandinu. Innan þessa tímabils er svo hver starfsmaður aðeins ráðinn í tvær 90 daga lotur svo ekki skapist réttindi um veikindadaga og orlof sem starfsmaður getur gert kröfu um eftir 3.ja mánaða starf. Það getur haft  veruleg samfélagsleg áhrif á lítið byggðalag, ekki öll jákvæð, ef hundruð erlendra starfsmanna með skammtímabúsetu settust þar að.

Það er aðeins spurning hvenær en ekki hvort alvarlegir veirusjúkdómar koma upp í laxeldi hérlendis. Nú er t.a.m. alvarlegur veirublóðsjúkdómur (ILA) byrjaður að dreifa sér milli eldisstöðva í nyrstu fylkjum Noregs. Ljóst má vera að mikil áhætta er tekin með því að flytja lifandi lax milli allra eldissvæða Vestfjarða og nota þá sömu bátana í því tilliti. Það brýtur allar grundvallarreglur í sjúkdómavörnum.

Það eru e.t.v. óþarfa áhyggjur að áætla að eitt risasláturhús verði byggt til að þjónusta öll eldisfyrirtækin á Vestfjörðum. Slíkur rekstur gerir kröfu um náið samstarf og samráð. Grunnt er á því góða milli fyrirtækja og kærumál ganga þeirra á milli. Ekki er fyrirséð að allir stefni á sömu lausnir og hafi sömu markmið.

Fyrir Vestfirðinga skiptir sköpum að langtímasjónarmið séu höfð í huga þegar kemur að innviðauppbyggingu vegna laxeldis. Fyrir laxafyrirtækin er mikilvægt að starfa í sátt við sitt samfélag. Samfélagsábyrgð þarf ekki að koma á kostnað samkeppnissjónarmiða. Vona ég að málið verið leitt til lykta með slíkar áherslur í farteskinu.

Jón Örn Pálsson

ráðgjafi

DEILA