Friðlandið í Flatey stækkað

Ráðherra og ráðuneytisstjóri ásamt fulltrúum ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í gær auglýsingu um stækkun friðlandsins í Flatey.

Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda, s.s. þórshana, kríu og lunda. Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu, og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Búsvæði og lífríki í fjörum og í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði margra fuglategunda. Náttúrufegurð svæðisins er einnig mikil og þar finnst m.a. marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu.

Markmið með friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni.

Með viðbótinni nú er stærð friðlandsins tvöfölduð, í 1,62 km2. Stækkunin er austan marka verndarsvæðis í byggð og nær til eyja, hólma og skerja suður af Flatey. Þar sem friðlandið nær í sjó fram tekur friðlýsingin til hafsbotns, lífríkis og vatnsbóls. Friðlandið er innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem er verndað með sér lögum.

Viðstaddir stækkunina voru fulltrúar ábúenda í eynni, sveitarfélagsins Reykhólahrepps, Breiðafjarðarnefndar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

DEILA