Djúpið: laxastofnar Laugardalsár og Langadalsár taldir náskyldir en rannsóknir takmarkaðar

Rannsóknir á stofngerðum laxastofna í Ísafjarðardjúpi benda til þess að stofnarnir í Laugardalsá og Langadalsá séu náskyldir. Þetta kemur fram í svörum Hafrannsóknarstofnunar við fyrirspurnum Bæjarins besta. Niðurstöður rannsóknanna hafa ekki verið birtar.

Þá er ekki talið að sleppningar í árnar um áratugaskeið með seiðum af Elliðaár- og Kollafjarðarstofni hafi haft áhrif því laxastofninn er yfirgnæfandi af vestfirskum uppruna. Um 30 ár eru síðan sleppingum var hætt. Engar rannsóknir hafa verið gerðar til þess að meta árangurinn af ræktunarstarfinu.

Hér koma spurningarnar og svörin.

Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á laxastofnum sem ganga í Laugardalsá annars vegar og í Langadalsá og Hvannadalsá hins vegar og hvað hafa þær leitt í ljós um skyldleika þeirra við hvorn annan og við aðra stofna?

Erfðasýnum var safnað úr 32 íslenskum ám árið 1991 og voru það fyrstu rannsóknir á stofngerðum laxastofna hérlendis (Anna Kristín Daníelsdóttir o.fl. 1997).  Niðurstaða rannsóknanna leiddi í ljós að flestar laxár á Íslandi eru taldar með laxastofna sem aðgreinast erfðafræðilega frá stofnum í öðrum ám og í stærri vatnakerfum getur verið um fleiri en einn stofn að ræða (Anna Kristín Daníelsdóttir o.fl. 1997).  Einnig að laxastofnar innan sama landsvæðis voru skyldari en laxastofnar í öðrum landshlutum.  Svipaðar rannsóknir fóru fram á erfðaefni laxa úr 26 ám árin 2002 – 2006 (Ólafsson o.fl. 2014). Í báðum þessum rannsóknum var rannsakað erfðaefni laxa úr Laugardalsá.  Þær niðurstöður hafa ekki verið birtar en niðurstöður benda til að laxastofn Langadalsár er talinn náskyldur laxi í Laugardalsá (Sigurður Guðjónsson, munnlegar upplýsingar).  Á undanförnum árum hefur erfðasýnum verið safnað úr flestum stærri ám á Vestfjörðum, en niðurstöður hafa einungis verið birtar að hluta (Leó M. Alexandersson o.fl. 2017) og benda þær til að lax úr vestfirskum ám myndi sérstakan erfðahóp.

 Hver hafa áhrif af ræktunarstafi í ánum, svo sem með sleppingum, verið á arfgerð stofnanna?

Laugardalsá er dæmi um á þar sem fiskvegagerð opnaði meginhluta vatnasvæðisins fyrir göngufiski, first árið 1941 en varanlegur stigi var byggður 1969.  Á þessu tímabili var sleppt seiðum af Elliðarárstofni og Kollafjarðarstofni, en síðar af heimastofni.  Engar sleppingar hafa verið gerðar í ána undanfarin 30 ár.  Þær rannsóknir sem liggja fyrir á arfgerð Laugardalsár sýna að áin fellur innan Vestfjarða ættartrésins og því virðist vestfirski uppruninn hafa yfirgnæft lax ættaða úr Elliðánum og Kollafirði.  Engar rannsóknir liggja hins vegar fyrir sem beinlínis hafa verið gerðar til að meta árangur af ræktunarstarfi og á það einnig við um Langadalsána.

 Eru til áreiðanlegar upplýsingar um stofnana eins og þeir voru fyrir upphaf ræktunarstarfsins?

Þær upplýsingar sem liggja fyrir um laxastofna Langadalsár og Laugardalsá lúta mest að veiðinýtingunni sem slíkri og söfnun veiðiskýrsla.  Laxárannsóknir hófust í Langadalsá á níunda áratugnum og síðan í Laugardalsá á þeim tíunda og lutu þær einkum að því skoða tegundasamsetningu á hrygningar – og uppeldissvæðum innan ána og rannsóknum á lífsferli laxins í ánum.  Þekking á því að sérstakir laxastofnar væru í hverri á og jafnvel margir í stærri vatnakerfum var áður fyrr ekki fyrir hendi og það er ekki fyrr en 1988 að reglugerð er sett hérlendis sem bannar blöndun laxastofna og að öll ræktun skuli fara fram með heimastofni eingöngu og þekkingu á erfðaefni laxastofna hefur aukist gríðarlega á seinni árum og þeirri tækni sem unnt er að nota við greiningar á erfðaefninu.  Möguleiki er hins vegar á að rannsaka  erfðaefni úr hreistursýnum.  Þannig er til staða hreistursýni í töluverðu magni frá árinu 1973 í Langadalsá  og úr Laugardalsá frá tíunda áratugnum.  Áhugavert væri að greina erfðasamsetningu frá þessu tíma og bera saman við nýleg sýni.

Hafa þessir stofnar orðið fyrir áhrifum af göngu eldislaxa upp í árnar?

Laxagöngur í árnar eru vaktaðar með teljurum þar sem skoðuð er myndbönd af löxum sem ganga upp í árnar.  Þessar athuganir hófust 2018 í Laugardalsá og 2019 í Langadalsá.  Ekki hefur orðið vart við laxa af eldisuppruna í teljurunum, en einn lax af eldisuppruna fannst þó í Laugardalsá 2018.  Niðurstöður eru þó ekki óyggjandi þar sem erfiðleikar hafa komið fram við starfrækslu teljaraþrepsins í Langadalsá og hluti göngunnar þar hefur farið framhjá teljaranum.  Líkur benda hins vegar til að að mjög fáir laxar af eldisuppruna hafi gengið í ánar (Heimilddir……)

Þá hefur Hafrannsóknastofnun safnað erfðasýnum frá árinu 2015 til að meta erfðablöndun í ánum.  Niðurstöður á rannsóknum á erfðaefni seiða í Langdalsá og laugardalsá liggja ekki fyrir en verið er þróa aðferðir til greiningar áerfðablöndun sem eru sérsniðnar að íslenskum aðstæðum (Fjóla Rut Svavarsdóttir o.fl. 2021)