Dauðafæri Vestfjarða

Nánast öll fullorðinsár undirritaðrar, sem þó er komin yfir miðjan aldur, hafa Vestfirðir átt í varnarbaráttu. Fólksfækkun vegna erfiðra samgangna, breyttra atvinnuhátta, áfalla og fjölmargra annarra orsaka hefur sett svip sinn á sögu Vestfjarða síðustu 30 ár eða svo.

Allra síðustu ár höfum við séð merki umbreytingar og segja má að við höfum undanfarið staðið á krossgötum, möguleikar eru enn á að bregði til beggja átta. Þó má halda því fram með nokkrum rökum að Vestfirðir séu nú í dauðafæri til að þróast í jákvæða átt fólksfjölgunar og uppbyggingar. Sjávarútvegur hefur um aldir verið sú atvinnugrein sem allt hefur byggst á en aðrar atvinnugreinar hafa nú möguleika á að nálgast sjávarútveg í efnahagslegu mikilvægi fyrir Vestfirði. Fiskeldi og ferðaþjónusta eru hér í miklum vexti og geta á næstu árum skapað umtalsverð tækifæri.

Samgönguframkvæmdir í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði auk Dýrafjarðarganga opna Vestfirði sem um munar og auka búsetugæði á svæðinu og skapa möguleika í ferðaþjónustu allt árið auk þess að tryggja flutning afurða til og frá svæðinu með öruggari hætti en verið hefur. Stórstígar samgöngubætur undanfarinna ára gera að verkum að á Vestfjörðum eru á nokkrum stöðum bestu vegir landsins. Enn þurfum við þó að búa við erfiða kafla sem þó munu styttast með hverju árinu næstu 2-3 árin. Fagna ber hverjum áfanga en við megum ekki gleyma okkur í gleðinni því þetta er ekki búið fyrr en klippt er á borðann.

Fiskeldið er að skapa tækifæri fyrir Vestfirði. Við erum að sjá fólksfjölgun sem við höfum ekki séð í langan tíma á sunnanverðum Vestfjörðum og eldi er að fara af stað í Ísafjarðardjúpi og fer stækkandi í Dýrafirði og Önundarfirði. Enn er þessi atvinnugrein þó í vexti og vaxtarverkja mun gæta á næstu árum. Mikilvægt er að sveitarfélögunum verði tryggðar réttmætar tekjur af þessari atvinnugrein til að þau geti sinnt hlutverkum sínum og byggt um samfélagslega umgjörð sem er eftirsóknarverð til búsetu. Sveitarfélög og fyrirtækin sem starfa í greininni þurfa að vinna saman að þessum markmiðum ásamt með ríkisvaldinu sem ákveður umgjörðina.

Loftslagsmál, orkuskipti og stafræn tækni munu hafa gríðarleg áhrif á þróun allra atvinnugreina á næstu árum og mikilvægt er að öll fyrirtæki og sveitarfélög grípi þau tækifæri sem þar geta skapast og láti þau ekki framhjá sér fara. Þróunarverkefnið Blámi sem Landsvirkjun, Vestfjarðastofa og Orkubú Vestfjarða standa að leitar leiða til að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.

Nýsköpun á öllum sviðum er lykilatriði til að hér þróist samfélag sem er eftirsóknarvert til búsetu og til að Vestfirðir verði aflstöð frekar en verstöð sem við höfum alltof lengi leyft okkur að vera. Vestfirðir mega ekki lengur vera aðeins framleiðslustaður, tryggja þarf aukna verðmætasköpun á svæðinu. Með því að í auknum mæli er hægt að sinna störfum án staðsetningar skapast hér umtalsverð tækifæri – grípum þau!

Til þess að íbúafjölgun geti orðið þurfa samfélögin að vera eftirsóknarverð til búsetu, víðast hvar vantar íbúðarhúsnæði, leikskólapláss þarf að tryggja, aðstöðu til íþróttaiðkunar svo aðeins örfá atriði séu nefnd. Auk þessa þarf að tryggja miklu betri samgöngur innan atvinnusvæða á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum og bæði afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku á öllu svæðinu.

Dauðafærið kostar vissulega fjárútlát en afraksturinn er að á Vestfjörðum verði á komandi árum arðbært tíu þúsund manna samfélag. Hvers virði er það?

Sigríður Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA