Byggðastofnun: líkleg þróun lífskjara ræður miklu um áframhaldandi búsetu í byggðarlaginu

Út er komin skýrsla um búsetuáform landsmanna sem Byggðastofnun hefur unnið í samstarfi við innlendar og erlendar háskólastofnanir. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá greinargott yfirlit um búsetuþróun á Íslandi, orsakir hennar og afleiðingar. Starfið var leitt af Þóroddi Bjarnasyni prófessor við Háskólann á Akureyri. 

Í þessari skýrslu, sem er þriðji hluti rannsóknarinnar,  fjallar um íbúa höfuðborgarsvæðisins og stærri bæja á Íslandi, Þátttakendur voru 9.664 íbúar á höfuðborgarsvæðinu og í 16 bæjum utan þess. Á Vestfjörðum náði könnunin til póstnúmers 400. Svarendur þar voru 381.

Þeir sem eru sáttir og sjá fram betri lífskjör ætla ekki að flytja

Meðal niðurstaðna er að mat svarenda á líklegri þróun lífskjara í byggðakjarnanum á næstu árum hefur sterkari tengsl við búsetuáform en mat þeirra á þróun síðustu ára. Framtíðarsýn svarenda er samofin búferlahugleiðingum og
þeir sem eru sáttir við búsetu sína í dag og telja lífskjör sín verða betri í náinni framtíð ætla ekki að flytja á næstu árum.

Þetta er athyglisvert í ljósi íbúaþróunar byggðalögum á Vestfjörðum þar sem áhrifa fiskeldis gætir hvað mest. Þar fjölgar íbúum sbr í Vesturbyggð og skýringin gæti einmitt verið að íbúarnir sjá fram á betri lífskjör. Því má vænta þess að með vaxandi eldi á Vestfjörðum, einkum í Ísafjarðardjúpi, muni fylgja því að íbúarnir verði sáttir við búsetuna og sjái fram á batnandi lífskjör sem leiðir svo af sér íbúafjölgun.

Ísafjörður: 94% ánægð

Yfir heildina litið eru um 89% þátttakenda í könnuninni frekar eða mjög ánægð með búsetuna í sínu bæjarfélagi en 4% eru frekar eða mjög óánægð. Hlutfall þeirra sem eru frekar eða mjög ánægðir er þó alls staðar yfir 80%. Á Ísafirði eru 94% ánægðir sem er það fimmta hæsta í könnuninni.

Þegar spurt er um framtíðarhorfurnar eru svarendur á Ísafirði í 9. sæti yfir byggðarlögin og 62% telja að lífskjörin muni batna nokkuð eða mikið. Þar er Þorlákshöfn í efsta sæti með 91%.

Umhverfi og staðurinn mikilvægt fyrir Ísafjörð

Svarendur röðuðu nokkrum þáttum eftir mikilvægi fyrir sig. Þar mátu Ísfirðingar umhverfið og náttúran mikilvægara en íbúar annarra byggðarlaga í könnuninni og mikilvægi staðarins sem slíks var það næst mesta og mikilvægi samfélagsins á staðnum var það þriðja hæsta.

Líklegar að flytja frá Ísafirði en flestum öðrum stöðum

Lægst hlutfall þeirra sem segja líklegt að þeir flytji í framtíðinni er í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, í vesturhluta Reykjavíkur, á Akureyri, í Þorlákshöfn og á Akranesi, en á þessum stöðum segjast 10% eða færri reikna með að flytja.

Á Ísafirði telja 16% líklegt að þeir flytji burt í framtíðinni og er það fimmta hæsta hlutfallið í könnuninni. Þó verður að athuga að alls staðar eru miklu fleiri sem telja ólíklegt að þeir flytji og á Ísafirði er það hlutfall 61%.

Flestir flytja suður

Þau tæplega 7% svarenda sem sögðu að þau myndu líklega eða örugglega flytja í burtu á næstu tveimur til þremur árum voru spurð hvert væri líklegast að þau myndu flytja og hverjar helstu ástæðurnar sem liggja að baki þeirri ákvörðun væru.

Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og ætla að flytja á næstu tveimur til þremur árum segjast annað hvort ætla að flytja til annars landshluta eða til útlanda. Af höfuðborgarbúum sem ætla að flytja innanlands ætla 26% að flytja til Árborgar, Hveragerðis eða Ölfuss, 15% til Akraness eða Borgarbyggðar og 13% til Suðurnesja.

Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og ætla að flytja á næstu tveimur til þremur árum ætla flestir að flytja á höfuðborgarsvæðið, sérstaklega þeir sem búa í Vestmannaeyjum, á Ísafirði eða á Suðurnesjum utan Reykjanesbæjar. Svarendur á Ísafirði sögðust flestir, eða 51%, myndu flytja á höfuðborgarsvæðið. Aðeins í Vestmannaeyjum ætlu fleiri að flytja þangað.

DEILA