Brothættar byggðir

Verkefnisstjórn fundar í Blábankanum á Þingeyri.

Níu ár eru síðan verkefnið Brothættar byggðir hóf göngu sína. Í upphafi verkefnisins var hugmyndin sú að búa til aðferð eða verklag sem hægt væri að yfirfæra á byggðarlög sem stæðu frammi fyrir sambærilegum vanda, þ.e. viðvarandi fækkun íbúa og erfiðleikum í atvinnulífi.

Ársskýrsla byggðaþróunarverkefnisins Brothættar byggðir fyrir starfsárið 2020 hefur verið gefin út. Skýrslan gefur yfirlit yfir framvindu verkefna í þeim sjö byggðarlögum sem voru þátttakendur í verkefninu árið 2020 en af þeim eru þrjú á Vestfjörðum

Áfram Árneshreppur
Á íbúafundi um stöðu verkefnisins 2020 var samþykkt veruleg áherslubreyting. Í henni fólst að verkefnisstjórn skyldi einbeita sér að því að styrkja innviði í sveitarfélaginu, samgöngumálum, orkumálum og fjarskiptamálum.
Einnig þyrfti að vinna að styrkingu sjávarútvegs og auðvelda nýliðun í landbúnaði. Eftir þessari samþykkt hefur verkefnisstjórn unnið síðan og lagt áherslu á ofangreinda þætti. Áfram var unnið að ýmsum öðrum markmiðum verkefnisáætlunar fyrir byggðarlagið og m.a. veittir frumkvæðisstyrkir til margra spennandi verkefna. Samkvæmt samningi átti verkefninu að ljúka í lok árs 2021 en þegar þetta er ritað hefur ríkisstjórn nýlega samþykkt að beina því til Byggðastofnunar að framlengja verkefnið til loka árs 2022 vegna sérstöðu byggðarlagsins.
Samstarfsaðilum stofnunarinnar hefur þegar verið tilkynnt um framlengingu verkefnisins.

Öll vötn til Dýrafjarðar
Árið 2020 var mjög óvenjulegt ár að mörgu leyti þar sem heimsfaraldur hafði veruleg áhrif á framvindu verkefnisins.
Má þar fyrst nefna að ekki var unnt að halda íbúafund og mörgum verkefnum þurfti að fresta. Þrátt fyrir þessar aðstæður hefur verkefnið haldið áfram með aðeins breyttum aðferðum. Samskipti hafa að mestu farið fram með rafrænum hætti. Íbúafundi sem halda átti árið 2020 var frestað til ársins 2021. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir hefur verkefnið gengið vel og ýmislegt áunnist. Mörg verkefni eru í gangi, mislangt á veg komin og sumum þeirra er lokið. Allt eru þetta verkefni sem hafa þýðingu fyrir samfélagið á Þingeyri og við Dýrafjörð.
Frá upphafi verkefnisins hafa samtals 55 verkefni verið styrkt. Verkefnisstjóri hefur aðstoðað íbúa svæðisins við að sækja um styrki í aðra samkeppnissjóði og umsóknum frá svæðinu í slíka sjóði fjölgað mikið og nokkur þeirra hlotið styrki. Nokkur þessara verkefna gætu skilað auknum störfum inn á svæðið þegar fram líða stundir. Má segja að þetta sé ein birtingarmynd þess hvernig verkefnið hefur gengið fram til þessa

Sterkari Strandir
Verkefnið hófst formlega með íbúafundi í júní 2020. Árið 2020 var óvanalegt ár til að hefja verkefni af þessu tagi, en jákvætt að meira fjármagn var til úthlutunar úr Frumkvæðissjóði, auk þess fór fram sérstök úthlutun úr Öndvegissjóði Brothættra byggða. Ástæða þessa var vegna sérstaks fjárfestingarátaks stjórnvalda vegna COVID-19. Því hefur ekkert verkefni haft jafn mikla fjármuni og Sterkar Strandir til úthlutunar við upphaf verkefnisins, en á móti kemur að vegna þeirra flóknu aðstæðna sem upp hafa komið sökum heimsfaraldurs fékk verkefnið í upphafi ekki þann slagkraft og samhljóm innan samfélagsins og ætla hefði mátt að það hefði fengið í árferði án samkomutakmarkana að mati verkefnisstjóra.
Segja má að verkefnið hafi farið hægar af stað en ella, en sé nú að komast á fullt skrið. Íbúar eru stöðugt betur að átta sig á þeim tækifærum sem í verkefninu felast og aukinn kraftur er að færast í verkefnið.

DEILA