Arnarlax: hagnaður fyrri hluta ársins

Mynd úr árshlutauppgjöri Icelandic Salmon.

Birtar hafa verið upplýsingar um afkomu Icelandic Salmon, sem er eignarhaldsfélagið utan um Arnarlax hf, fyrir fyrri hluta ársins. Icelandic salmon er skráð á Euronext Growth markaðinn í norsku kauphöllinni.

Heildaruppskeran á fyrri hluta ársins var 4.847 tonn af laxi, sem er heldur lægra en á sama tíma í fyrra en þá var slátrað 5.954 tonnum.  Gert er ráð fyrir að uppskeran á árinu verði 14.000 tonn.

Tekjurnar voru 35,2 milljónir evra, sem samsvara 5,2 milljörðum íslenskra króna. Tekjur umfram rekstrargjöld, framlegðin, var 3,4 milljónir evra eða um 510 milljónir króna. Hagnaður að teknu tilliti til fjármagns og afskrifta eru 2,3 milljónir evra eða sem svarar 340 milljónir íslenskra króna.

Meðalverð á hvert kg af laxi var 5,71 evra á fyrri hluta ársins og fór hækkandi eftir því sem leið á árið. Það gerir um 850 kr/kg. Á sama tíma í fyrra var meðalverðið 5,95 evrur/kg.

Eignir á efnahagsreikningi fyrirtækisins eru færðar á 153 milljónir evra eða um 23 milljarða íslenskra króna. Eigið fé er þar af 111 milljónir evra eða um 16,5 milljarða króna. Þetta þýðir að um 73% af eignunum eru skuldlausar.

Stærsti eigandi að Icelandic Salmon er SalMar með 51%. Næst stærsti eigandinn er Íslandsbanki með 7,3% hlutafjár. Samtals er um 18% hlutafjár í eigu Íslendinga.

Á fyrri hluta ársins keypti Icelandic Salmon tvær seiðaeldisstöðvar, á Hallkelshólum og í Þorlákshöfn sem mun tvöfalda seiðaeldisframleiðsluna.

Arnarlax hefur leyfi fyrir 25.200 tonna sjókvíaeldi í Patreksfirði, Arnarfirði og Tálknafirði auk þess að vera með umsókn um 4.500 tonna stækkun í Arnarfirði og umsókn um 10.000 í Ísafjarðardjúpi.

Í frétttilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram á fyrstu sex mánuðum ársins hafi  stjórnunarteymi Icelandic Salmon verið styrkt enn frekar með ráðningu tveggja nýrra stjórnenda inn í framkvæmdastjórn félagsins. „Þeir sem nú mynda framkvæmdastjórn félagsins hafa allir mikla reynslu og munu gegna lykilhlutverki í áframhaldandi stefnumótun og þróun Icelandic Salmon,“ sagði Björn Hembre, forstjóri fyrirtækisins.

Markaðssetning og staðfærsla

„Við höfum að undanförnu stigið mikilvæg skref þegar kemur að markaðssetningu og staðfærslu á framleiðsluvörum okkar. Fyrr í þessum mánuði kynntum við nýtt vörumerki og vígorð sem byggir á áherslu okkar á sjálfbærni: „Arnarlax – Sustainability – It´s in our nature“. Þetta nýja vörumerki mun hjálpa við að aðgreina betur vörur Icelandic Salmon og gera okkur kleift að fara inn á nýja markaði sem skila meiri framlegð,“ sagði Björn.

Með nýrri kælitækni er unnt að flytja laxinn út til Bandaríkjanna sjóleiðis og minnka kolefnisspor vörunnar verulega auk þess að lækka kostnaðinn borið saman við útflutning með flugi.


 

 

DEILA