Arctic Sea Farm: tekjur jukust um 80% frá fyrra ári – Eiginfjárhlutfall um 70%

Seiðaeldisstöð Arctic Sea Farm í Tálknafirði.

Tekjur Arcic Sea Farm jukust um 80% á árinu 2020 frá fyrra ári og urðu 3,7 milljarðar króna. Hagnaður varð af beinum rekstri um 9 m.kr. Árinu áður varð tap af rekstrinum um 14 m.kr.

Eftir fjármagnsliði var niðurstaða ársins 23 m.kr. tap. Árinu áður varð tapið tvöfalt meira.

Framleiðslan 2020 varð 7.443 tonn af slægðum laxi og 2,9 milljón seiði voru sett út í kvíar. Lífmassinn var 10.513 tonn. Fjöldi fiska í eldinu í lok ársins var 3,8 milljónir og hver fiskur 1,6 kg að meðaltali.

Á þessu ári 2021 er áætlað að framleiðslan verði 12.000 tonn af laxi og 3,5 milljón seiði.

Eignir á efnahagsreikningi eru 10 milljarðar króna, þar af er lífmassi metinn á 5,3 milljarða króna. Eldisstöðvar, tæki og búnaður eru metin á 3,7 milljarða króna. Skuldir og skuldbindingar eru 2,7 milljarðar króna og skuldlaust eigið fé fyrirtækisins um 7,2 milljarðar króna.

Útgefið hlutafé í árslok er 8,2 milljónir króna að nafnvirði. Hluthafar í árslok voru tveir líkt og í ársbyrjun. 99,96% voru í eigu Arctic Fish ehf. og 0,04% í eigu Arctic Oddi ehf.

Á árinu jókst fjárbinding í lífmassa um nærri 2 milljarða króna og fjárfest var fyrir 1,2 milljarða króna.

Launakostnaður var um 300 milljónir króna og 30 starfsmenn voru í lok ársins.

Í skýrslu stjórnar segir að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi ekki haft áhrif á framleiðsluna árið 2020 en hafði áhrif á verðlagningu. Minni eftirspurn fyrir matvælaþjónustu leiddi til lægra verðs á laxi í heild.

Ársreikningurinn er gerður upp í evrum og eru tölur í fréttinni reiknaðar í íslenskar krónur á genginu 150 kr/evra.

DEILA