86% íbúa landsins eru íslendingar

Í nýju yfirliti Þjóðskrár Íslands kemur fram að þann 1. ágúst voru 52.484 íbúar með erlent ríkisfang búsettir á Íslandi eða um 14% þjóðarinnar. Íbúar voru þá alls 372 þúsund og þar af 320 þúsund Íslendingar.

Íbúum hefur fjölgað um 3.909 frá 1. desember sl. þar af voru 1.106 útlendingar. Fjölgunin er 1,1% á þessum níu mánuðum.

Pólverjar eru fjölmennastir útlendinga og voru þeir 20.760 um síðustu mánaðamót. Næstflestir eru frá Litháen 4.638, þá 2.475 frá Rúmeníu og 2.215 frá Lettlandi. Í fimmta sæti eru Þjóðverjar, en þeir eru 1.588.

Næst koma Spánverjar 1.336, Portúgalir 1.311, Bretar 1.241, Filipseyingar 1.076 og í tíunda sæti erubandaríkjamenn 916 manns.

20% íbúa á Vestfjörðum eru útlendingar

Hlutfall útlendinga á Vestfjörðum er um 20% sem er nokkru hærra landsmeðaltalið 14%.

Alls voru í upphafi árs 2020 rúmlega 1.400 manns með erlent ríkisfang á Vestfjörðum.

Flestir bjuggu í Ísafjarðarbæ 770 manns, í Bolungavík voru 232 og 225 í Vesturbyggð. Í Súðavík voru 66 útlendingar, á Tálknafirði 54 og 34 í Strandabyggð. Í Kaldrananeshreppi voru 17 manns með erlent ríkisfang, 18 í Reykhólahreppi og 2 í Árneshreppi.