Vestfirðir: flugvallaframkvæmdir vel undir áætlun

Frá lagningu slitlagsin á Bíldudal. Mynd: Finnbjörn Birgisson.

Kostnaður við framkvæmdir og viðhald á flugvöllum á Vestfjörðum árin 2019 og 2020 urðu vel undir kostnaðaráætlun samkvæmt yfirliti sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram á Alþingi nýlega.

Það var þingmaðurinn Líneik Anna Sævarsdóttir sem kallaði eftir upplýsingum um verkefni á flugvöllum landsins þessi ár.

Á Ísafirði voru tvö verkefni. Annars vegar malbikun bílastæða og hins vegar klæðning flugbrautar. Kostnaður við bílastæðin var áætlaður 80 m.kr. er reyndist vera 63,4 m.kr. eða um 20% lægri. Klæðing flugbrautarinnar var áætlað að kostaði 97,5 m.kr. en varð 82,6 m.kr. sem er um 15% undir kostnaðaráætlun. Yfirsprautun er þó ólokið og verður framkvæmd í sumar.

Á Bíldudalsflugvelli var einnig sett á flugbrautina ný klæðning. Kostnaðurinn varð 39 m.kr. en hafði verði áætlaður 67,5 m.kr. Það er liðlega 40% undir kostnaðaráætlun. Þá var gert ráð fyrir að endurnýja flugbrautarljós á Bíldudalsflugvelli fyrir 20 m.kr. en verkið frestaðist og er enn ólokið. Í athugasemdum kemur fram að verkið verði unnið í sumar.

Loks kemur fram að á Gjögri er 9 m.kr. fjárveiting til þess að koma upp veðurbúnaði 2019, en hún hefur ekki verið notuð ennþá.

DEILA