UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR -um rætur myndlistar á Ísafirði -17.7 – 25.8 2021

Föstudaginn 16. júlí opnaði sýning í Gallerí Úthverfu sem ber heitið UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR – um rætur myndlistar á Ísafirði.

UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR er sex vikna verkefni í sýningarrými og listaverkabókabúð Úthverfu í miðbæ Ísafjarðar þar sem fjallað verður um uppruna myndlistar á Ísafirði og sagan rakin með myndum, texta, spjalli, viðtölum, málþingum og kynningum. Fjallað verður sérstaklega um feril Kristjáns H. Magnússonar (1903-1937) listmálara sem lærði ,,hagnýta grafíklist’’ í Ameríku og fyrsta teiknikennarann hans Guðmund Jónsson frá Mosdal (1886-1956).

Sýningunni er ætlað að vera lifandi sýningarvettvangur sem gefur innsýn í sögu myndlistar á Ísafirði eins og hún birtist hjá listamönnunum tveimur og jafnframt spyrja spurninga og leita svara. Lögð verður áhersla á samtal sýningargesta og þátttakenda/sýningarstjóra. Kynntir verða til sögunnar sjö ungir hönnuðir með tengingu við staðinn og verk þeirra sýnd. Þátttakendur eru: Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen, Elísabet Sóldís Þorsteinsdóttir, Fannar Már Skarphéðinsson, Jónbjörn Finnbogason, Margrét Lóa Stefánsdóttir, Marsibil Sól Þórarinsdóttir Blöndal og Una María Magnúsdóttir.

Leitað er dæma úr myndlistarsögu svæðisins og kastljósinu varpað á mikilvægi þess að börn og unglingar fái tækifæri til að tjá sig myndrænt með leiðsögn hæfra kennara. Verkefnið mun teygja anga sína út fyrir sýningarrýmið þar sem það á við.

Sýningarstjóri er Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) rannsóknarprófessor í grafískri hönnun og sýningin tengist rannsóknarverkefni hans sem fjallar um myndmál í prentsögu Íslands 1844-1944. Eins og áður kom fram verður fjallað sérstaklega um feril Kristjáns H. Magnússonar og teiknikennarann hans Guðmund frá Mosdal. Sýningarstjórinn Goddur verður á staðnum allan sýningartímann og skipuleggur málþing, vinnustofur og kynningar m.m. í samvinnu við aðra aðstandendur verkefnisins. Dagskráin verðu spunnin af fingrum fram á sýningartímanum og brugðist við nýjum upplýsingum sem fram kunna að koma í tengslum við sýninguna.

Allt ferlið verður myndað og skráð og efni safnað fyrir útgáfu bæklings og til kynningar á netinu. Að sýningunni lokinni verður efni sýningarinnar og það sem safnast hefur á sýningartímanum tekið saman og gefið út á prenti.

DEILA