Með ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. júní 2021, var skipið Bergvík GK-22 (2617) svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur vegna brottkasts. Veiðileyfissvipting gildir frá og með 2. júlí 2021 til og með 15. júlí 2021.
Í ákvörðuninni kemur fram að við eftirlit Fiskistofu þann 28. apríl 2021 hafi veiðieftirlitsmenn orðið áskynja um að áhöfn skipsins væri að kasta afla fyrir borð.
Við eftirlitið var notast við fjarstýrt ómannað flugfar (dróna) með áfastri myndavél og var upptökubúnaðurinn virkjaður eftir að eftirlitsmenn urðu varir við brottkast.
Ákvörðunin byggir á því að áhöfn skipsins hafi kastað fyrir borð a.m.k. 72 fiskum á um 40 mínútna tímabili, sem komið höfðu í veiðarfæri skipsins og með því brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvæðið gerir skylt að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa.
Fiskistofa hefur notað dróna við eftirlit með fiskveiðum frá því í janúar og nú munu sjö mál vera til rannsóknar sem rekja má til eftirlits með þessum hætti.