Suðureyri: Fisherman áformar landfyllingu fyrir 180 m.kr.

Fyrirtækið Fisherman á Suðureyri er með í undirbúningi að ráðast í 30.000 fermetra landfyllingu við Brjótinn, um hálfan km fyrir utan þorpið. Tilgangurinn er að búa til land fyrir iðnaðar- og athafnastarfsemi á Suðureyri. Einnig er markmiðið að skapa aðstöðu fyrir starfsemi Fisherman ehf. og stuðla að vexti fyrirtækisins á Suðureyri.

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman segir að samkvæmt samningi við Ísafjarðarbæ muni Fisherman annast þetta verkefni sem einkaframkvæmd.

„Áætlaður kostnaður við landfyllingu er um 180 milljónir en á móti falla niður öll gatnagerðargjöld af byggingum á þessu svæði. Þegar framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út hefst vinna við landfyllingu og samhliða því verður gert deiliskipulag fyrir svæðið. Þá gefst öllum tækifæri á að taka þátt í þessu verkefni með okkur svo við óskum eftir að heyra í sem flestum sem vilja nýta sér þetta land með okkur. Deiliskipulag tekur um 6-8 mánuði og þar með er hægt að byrja að byggja á stórum hluta af þessu svæði strax næsta vor ef allt gengur upp.“

Áformin eru tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sem komst að þeirri niðurstöðu í gær að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og úrskurðaði að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Næsta skref er að sækja um framkvæmdaleyfi til Ísafjarðarbæjar og er búist við því að það fáist greiðlega.

DEILA