Strandabyggð: ekki fullmönnuð sveitarstjórn

Aðeins fjórir sveitarstjórnarmenn sátu fund sveitarstjórnar Strandabyggðar í fyrradag, en fimm eiga sæti í henni. Er þetta í annað skiptið á stuttum stíma sem sveitarstjórn er ekki fullmönnuð. Það sama gerðist 11. maí en þá voru fjórir mættir.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru 2018 voru engir listar boðnir fram og fór fram persónukjör. Kosnir voru fimm til setu í sveitarstjórninni og fimm til vara. Vegna forfalla og brottflutnings hefur reynst erfiðleikum bundið að manna fundi sveitarstjórnar.

Við afgreiðslu á samningi milli  Strandabyggðar við Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu vék Jón Jónsson einn fjögurra sveitarstjórnarmannanna sem sat fundinn, af fundi þar sem hann er forstöðumaður setursins. Þá er oddvitinn, Jón Gísli Jónsson, bróður Jóns og var niðurstaða sveitarstjórnar að fela varaoddvita að að ganga frá samningnum.

Vilja efla starfsstöð Náttúrustofu Vestfjarða á Hólmavík

Eitt af málunum á fundinum var umræða um fundargerðir Náttúrustoðu Vestfjarða. Fram kom óánægja með framgöngu Náttúrustofunnar á Hólmavík og ályktað var um málið.

„Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir yfir vonbrigðum sínum og óánægju með að Náttúrustofa Vestfjarða hafi ekki ráðið starfsmann í stöðu á Hólmavík. Til skamms tíma voru tveir starfsmenn Náttúrustofu í hlutastarfi starfandi í Þróunarsetrinu á Hólmavík og mikilvægt hefði verið að samfella héldist í starfseminni á Ströndum. Brothættar byggðir mega ekki við því að missa slík störf.“


Oddvita var falið að koma bókuninni á framfæri við stjórn og forstöðumann Náttúrustofu og að óska eftir sérstökum fundi um hvernig efla megi starfstöð Náttúrustofunnar á Hólmavík.

DEILA