Stofnun þjóðgarðs frestað fram í ágúst

Stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum hefur verið frestað fram í ágúst að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Í síðustu viku voru fundahöld með Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og Þórdísi K. Gylfadóttur iðnaðarráðherra, þar sem ræddir voru friðunarskilmálar fyrir þjóðgarðinn og áform um að skoða virkjunarkosti, einkum Vatnsfjarðarvirkjun, innan væntanlega þjóðgarðs.

Orkubú Vestfjarða hefur bent á að óheimilt verði að rannsaka virkjunarkosti með meira afl en 10 MW ef svæðið verður gert að þjóðgarði, nema sérstaklega verði tilgreint í friðunarskilmálum að heimilt sé að gera rannsóknir og eftir atvikum virkja í framhaldinu. Er Vatnsfjarðarvirkjun talin sérstaklega vænleg vegna þess að umhverfisáhrif eru ekki mikil, vikrjunin er nálægt Mjólkárvirkjun og að afl virkjunarinnar gæti verið 20 – 30 MW sem myndi skipta sköpun um raforkuöryggi á Vestfjörðum.

„Það var í sjálfu sér engin niðurstaða af þessum fundi önnur en sú að fresta málinu fram í ágúst. Á sama tíma og það eru ýmis tækifæri í stofnun Þjóðgarðs fyrir landshlutann þá þarf líka að tryggja orkuöryggi svæðisins til framtíðar. Best væri að leysa úr hvorutveggja en hvort það tekst og þá hvernig á eftir að koma í ljós.“ segir í svari Birgis Gunnarssonar bæjarstjóra.

DEILA