Rafíþróttir í Bolungavík

Rafíþróttafélagi Bolungavíkur hóf starfsemi sína í byrjun 2021 og starfar innan Ungmennafélags Bolungavíkur.  Æfingar hófust 1. febrúar s.l., æfingarnar fóru fram í Hrafnakletti þar sem er ljósleiðari og góð aðstaða til rafíþrótta iðkunar. „starfið gekk mjög vel á síðustu önn og við fundum mikinn meðbyr og fólk hefur almennt tekið mjög vel í þetta, og við í rafíþróttafélaginu erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið“ segir Þorbergur Haraldsson formaður félagsins.

Rafíþróttir eru skipulögð keppni í tölvuleikjum, en það nær ekki að útskýra rafíþróttir almennilega að sögn Þorbergs. Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ) skilgreina rafíþróttir sem spilun tölvuleikja á forsendum íþrótta, það þýðir meðal annars, að æft sé markvisst og skipulagt, að æft sé sem hluti af liði og áhersla lögð á samvinnu og samskipti og að hugað sé að líkamlegri og andlegri heilsu.

Nú hefur verið stigið það skref að auglýsa eftir þjálfara fyrir komandi vetur til þess að mæta vaxandi áhuga unga fólksins á íþróttinni.

DEILA