Níu flokkar á þing – Framsókn næststærst

Í nýrri könnun MMR fá níu flokkar nægilegt fylgi til þess að fá menn kjörna í næstu Alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fær mest fylgi 25,4% og er með langmest fylgi. Þá koma þrír flokkar með um 12% fylgi. þeirra stærstur og í 2. sæti er Framsóknarflokkurinn með 12,3%, Píratar fá 12,2% samkvæmt könnuninni og Vinstri grænir 11,9%. Í fimmta sæti er Samfylkingin með 10,6% og þá Viðreisn sem mælist með 9,1%.

Þrír flokkar fá liðlega 5% fylgi. Miðflokkurinn mælist með 6,6& og bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn fara yfir 5% fylgi í könnuninni.

Helstu breytingar frá síðustu könnun eru þær að Sjálfstæðisflokkurinn missir 2% fylgi og Framsóknarflokkurinn bætir við sig 3%. Píratar missa 1% og Viðreisn bætir við sig 1%.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru samtals með tæplega 50% fylgi og stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 54,9% og jókst um rúmt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 53,7%.

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2.041 einstaklingur, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 24. júní til 6. júlí 2021.