Merkir Íslendingar – Óskar Kristjánsson

Óskar Kristjánsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð þann 30. júlí 1921.

Foreldrar hans voru Kristján Albert Kristjánsson kaupmaður, f. 28. janúar 1885, d. 2. ágúst 1961, og Sigríður H. Jóhannesdóttir ljósmóðir, f. 20. júní 1879, d. 8. júlí 1946.

Systkini Óskars voru;
 Guðrún, f. 1909 (látin), Þórdís, f. 1911, lést í æsku, Kristján Arnór, f. 1912 (látinn), Jóhannes, f. 1914 (látinn), Þórður, f. 1915 (látinn), Jón, f. 1917 (látinn), Þórdís, f. 1918 (látin), Finnborg Jóhanna, f. 1922, lést í æsku, og uppeldissystir, Jósíana Magnúsdóttir, f. 1919 (látin).

Þann  4. desember 1948 kvæntist Óskar Aðalheiði Friðbertsdóttur, húsmóður, fædd þann 28. júní 1927 á Suðureyri við Súgandafjörð, d. 22. september 2016. Foreldrar hennar voru hjónin Jóna Magnúsdóttir, húsfreyja og verkakona, og Friðbert G. Guðmundsson, sjómaður og verkamaður.

 Óskar og Aðalheiðurt eignuðust fjögur börn:
1) Erlingur, f. 16. júní 1948, 2) Sigríður, f. 24. maí 1950, 3) Kristján Albert, f. 28. maí 1955, 4) Aðalheiður Ósk, f. 6. október 1961.

Óskar Kristjánsson ólst upp á Suðureyri og lauk þar barna- og unglingaprófi. Hann stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og brautskráðist þaðan sem stúdent árið 1945 ásamt sex öðrum og var það fyrsta árið sem stúdentar brautskráðust frá Verzlunarskóla Íslands.

Eftir nám við Verzlunarskólann settist Óskar að á Suðureyri, gerðist þar skrifstofumaður og síðar framkvæmdastjóri Ísvers, sem rak frystihús og útgerð. Samhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri Ísvers fékkst Óskar við útgerð minni og stærri fiskibáta um árabil.

Óskar var framkvæmdastjóri útgerðar FiskiðjunnarFreyju hf, Súgandafirði, eftir sameiningu Ísvers og Freyju, 1971-1981.

Snemma tók Óskar þátt í sveitarstjórnarmálum, var t.d. hreppsnefndarmaður í 30 ár, þar af oddviti í átta ár. Í sýslunefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu í tíu ár. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Óskar sat í stjórn Sparisjóðs Súgfirðinga í 36 ár og þar af sparisjóðsstjóri í 18 ár eða allt þar til hann fluttist búferlum til Reykjavíkur árið 1984.

Óskar starfaði í Lionshreyfingunni fyrir vestan og var meðlimur Oddfellowreglunnar í stúkunni Nr. 1, Ingólfi í Reykjavík.

Aðaláhugamál Óskars voru bridds og laxveiðar. Laxveiðar voru hans líf og yndi og var Krossá í Bitrufirði eftirlætisá hans, þar sem hann veiddi á hverju ári í alls 35 ár. Bridds spilaði hann hvar sem honum bauðst það og spilaði sér til ánægju á tölvu heima síðustu árin. Þá naut hann sín vel við snokerborðið með félögunum þegar stund gafst til á allra síðustu árum heima í Eiðismýri 30 á Seltjarnarnesi.


Óskar Kristjánsson lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við Hringbraut þann  29. október  2005.


Aðalheiður Friðbertsdóttir og Óskar Kristjánsson.Skráð af Menningar-Bakki.