Menningarverðlaun Strandabyggðar afhent á Hamingjudögum

Lóan, menningarverðlaun Strandabyggðar, voru afhent föstudaginn 25. júní, í upphafi Hamingjudaga.

Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd velur verðlaunahafa í kjölfar tilnefninga frá íbúum, en Hafþór Ragnar Þórhallsson er skapari Lóunnar.

Glimrandi mæting var á viðburðinn enda var listsýning Rutar Bjarnadóttur opnuð af sama tilefni.

Svavar Knútur Kristinsson hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningarmála á svæðinu. Svavar Knútur er reglulegur gestur hjá okkur. Hann heldur tónleika, fræðslu og viðburði ásamt því að heimsækja okkar yngsta og elsta fólk. Þess utan er hann einn upphafsmanna Vetrarsólar og ötull stuðningsmaður annarra hátíða á svæðinu, einkum Hörmungardaga. Svavar stefnir jafnframt að því að undirbúa starfsemi og nýtingu á gamla vatnstankinum, hrafninum til heiðurs.

Arnkatla lista- og menningarfélag hlaut Lóuna fyrir eftirtektarvert menningarframtak. Dagrún Ósk Jónsdóttir, tók á móti verðlaununum fyrir hönd samtakanna en hún er formaður þeirra. Arnkatla var stofnuð í október 2019 og hefur síðan séð um ljósmyndaklúbb, komið upp einu útilistaverki og skipulagt heila skúlptúraslóð. Jafnframt hélt Arnkatla þrjár hátíðir síðastliðinn vetur; Vetrarsól á Ströndum, Hörmungardaga og Húmorsþing ásamt því að standa að fjölda annarra viðburða.