Kirkjubólskirkja i Valþjófsdal

Kirkjubólskirkja er í Holtsprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi. Kirkjuból var stórbýli og er kirkjustaður í Valþjófsdal við Önundarfjörð. Kirkjan, sem nú stendur, er timburkirkja, byggð 1886 og endurbyggð í upphaflegri mynd 1978. Hún á kaleik og patínu vrá 1792 og fornan skírnarsá úr kopar.

Kirkjubólskirkja er timburhús, 7,74 m að lengd og 4,54 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með lágt risþak. Kirkjan er klædd skarsúð en þök bárujárni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír sexrúðu gluggar. Fyrir kirkjudyrum er hurð klædd lóðréttum stöfum.

Inn af dyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans. Veggbekkir eru umhverfis í kór. Í fremsta stafgólfi framkirkju er afþiljað loft og steinsteyptur reykháfur í norðvesturhorni. Veggir eru klæddir póstaþili upp að miðsyllu en strikuðum panelborðum að ofan. Yfir innri hluta framkirkju og kór er borðaklædd hvelfing.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Af kirkjukort.net

DEILA