Ísafjörður: Mugison og kammerhópurinn Cauda Collective með tónleika í Hömrum á morgun kl 17

Cauda Collective og Mugison. Mynd: Ásgeir Þrastarson.

Mugison og kammerhópurinn Cauda Collective koma fram á tónleikum í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, sunnudaginn 11. júlí kl. 17. Þau munu leika nýjar útsetningar á lögunum á plötunni Haglél, fyrir klassísk hljóðfæri og Mugison sjálfan, en í haust eru tíu ár frá útgáfu plötunnar. 

Platan Haglél sló rækilega í gegn þegar hún kom út haustið 2011 og seldist í yfir þrjátíu þúsundum eintaka. Á henni hljóma nokkur af vinsælustu lögum Mugison eins og Stingum af, Gúanó stelpan og titillag plötunnar, Haglél. Á tónleikunum í Hömrum fá tónleikagestir fyrstir allra að heyra þessar nýju útsetningar, en hópurinn mun í haust fara á tónleikaferð um landið með sama efni.

Flytjendur á tónleikunum eru Mugison og Cauda Collective, en það eru Sigrún Harðardóttir á fiðlu, Þóra Margrét Sveinsdóttir á víólu, Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló, Borgar Magnason á kontrabassa, Grímur Helgason á klarinett og Matthías Hemstock á slagverk. 

Tónleikarnir eru afrakstur æfingahelgar hópsins á Ísafirði dagana 8.-11. júlí. Hópurinn hefur svo sannarlega notið þess að vinna í dásamlegu umhverfi Ísafjarðar sem án efa skilar sér í fallegum flutningi. Aðgangseyrir á tónleikana er 3000 krónur, miðasala fer fram við dyrnar og hægt er að greiða með greiðslukorti.

Cauda Collective er hópur skapandi tónlistarflytjenda sem leita út fyrir rammann í tónlistarflutningi sínum. Hlutverki flytjandans er ögrað, hann semur líka tónlist, útsetur, spinnur og vinnur þvert á miðla.

Nánari upplýsingar á facebook.com/caudacollective

DEILA