Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum í gær um álagningu fasteignagjalda fyrir 2022. Fyrir ráðið voru lagðar fimm mismunandi tillögur. Ein þeirra er að fasteignagjöldin verði óbreytt frá þessu ári.
Áætlaðar heildartekjur vegna fasteignagjalda ársins 2021 er kr. 706.930.713. Hækkunin frá 2020 er um 7%.
Verði álagningarhlutföllin óbreytt er það talið skila bæjarsjóði 809 m.kr. tekjum á næsta ári vegna hækkunar á fasteignamati.
Fjórar tillögur sem eru til skoðunar fela allar í sér lækkun á álagningarhlutföllun á einhvern hátt.
Í tillögu 2 er gert ráð lækkun á fasteignaskattinum í 0,5% á íbúðarhúsnæði, 1,6% á annað húsnæði og 1,3% á opinberar byggingar. Önnur fasteignagjöld yrðu óbreytt frá þessu ári. Þessi útfærsla mynd gefa 778 m.kr. í tekjur. það þýðir nærri 4% lækkun tekna af fasteignagjöldum miðað við óbreytt álagningarhlutföll.
Tillaga 3 er sama og tillaga 2 að viðbættu því að lækka lóðarleigu af íbúðarhúsnæði í 1,5%. þessi útfærsla skilar 768 m.kr. í tekjur og jafngildi 5% lækkun miðað við óbreytta stöðu.
Í tillögu 4 er fasteignaskatturinn áfram lækkaður en vatnsgjaldið af íbúðarhúsnæði lækkað í 0,05% í stað þess að lækka lóðarleigu. Áætlaðar tekjur eru nú 758 m.kr. og lækkunin frá þessu ári um 6,3%.
Loks er það tillaga 5 sem er sama og tillaga 4 en að auki er holræsagjald á íbúðarhúsnæði lækkað um helming, niður í 0,1%. Verði það niðurstaðan verða tekjurnar á næsta ári 723 m.kr. sem jafngildir 10,6% lækkun tekna miðað við óbreytt álagningarhlutföll.
Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum í gær og er málið áfram til umræðu.
Í nýbirtu fasteignamati fyrir 2022 sem Þjóðskrá Íslands gefur út hækkar fasteignamat íbúða í Ísafjarðarbæ um 23,6 prósent en heildarfasteignamatið um 18,9% frá 2021.