Hvatt til skráningar í bakvarðasveitir vegna Covid

Vegna mikillar fjölgunar greindra smita af COVID-19 á undanförnum dögum hefur verið ákveðið að endurvekja bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Því er enn á ný óskað eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks sem er reiðubúið að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara, hvort sem er í fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Þau sem voru skráð í bakvarðasveitina og sjá sér enn fært að veita liðsinni eru vinsamlega beðin um að skrá sig þar á ný. 

Einnig hefur Félagsmálaráðuneytið hvatt fólk til að skrá sig. Velferðarþjónustan sinnir þjónustu við viðkvæma hópa og mikilvægt að hún falli ekki niður þrátt fyrir það ástand sem nú ríkir. Óskað er eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa og börn með sértækar stuðningsþarfir. Óskað er sérstaklega eftir fólki með reynslu og menntun í heilbrigðis- og félagsþjónustu.