Ísafjarðarbær og Vestfjarðastofa efna til hugmyndasöfnunarinnar „Ísafjörður – okkar miðbær“ og er kallað eftir hugmyndum frá íbúum og öðrum sem vilja hafa áhrif á framtíð svæðisins í kringum miðbæ Ísafjarðar.
Hugmyndasöfnunin fer fram á vefnum Betra Ísland og hana má finna á slóðinni https://isafjordur.betraisland.is/community/3412. Söfnunin stendur frá 5.-31. júlí 2021. Öll sem vilja geta tekið þátt, hvort sem er með því að hlaða upp hugmyndum, kjósa eða koma með rök með og á móti tillögum. Fólk er hvatt til að hlaða upp myndum með tillögum sínum og einnig er hægt að hlaða upp myndbandi eða hljóðupptöku. Engin takmörk eru fyrir því hversu margar hugmyndir má setja fram svo fólk er hvatt til að virkja ímyndunaraflið til að hafa áhrif á þetta mikilvæga svæði þar sem margir sækja þjónustu og afþreyingu.
„Lifandi og skemmtilegur miðbær Ísafjarðar er mikilvægur fyrir alla íbúa Ísafjarðarbæjar og ég vil hvetja alla íbúa til að setja inn hugmyndir um hvernig þeir sjá fyrir sér að við getum öll hjálpast að við að efla miðbæinn okkar“ sagði Kristján Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sem á sæti í stýrihópi verkefnisins Nýsköpunarbærinn Ísafjörður.
Ísafjörður – okkar miðbær er liður í verkefninu Nýsköpunarbærinn Ísafjörður sem miðar að því að efla miðbæ Ísafjarðar og styðja við nýsköpun á svæðinu. Niðurstöður úr hugmyndasöfnuninni verða nýttar í gerð framtíðarsýnar um miðbæ Ísafjarðar og munu einnig nýtast við hönnun Nýsköpunarmílunnar, gönguleiðar sem innifelur áhugaverða staði í nýsköpun á svæðinu. Verður tekið mið af þessu við gerð nýs aðalskipulags Ísafjarðarbæjar.
Ef fólk þarf aðstoð við að hlaða upp hugmyndum eða hefur spurningar varðandi verkefnið má hafa samband við starfsmann verkefnisins, Steinunni Ásu (steinunn@vestfirdir.is).Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/hugmyndasofnunin-isafjordur-okkar-midbaer-1