Hrafnseyri: 200 manns á þjóðhátíð – fjölbreytt starfsemi í sumar

Jay Simpson og Henry Fletcher. Mynd: aðsend.

   Valdimar J. Halldórsson safnstjóri á Hrafnseyri hefur tekið saman yfirlit yfir starfsemina á Hrafnseyri í sumar og birtist hún hér. Þar verður töluvert um að vera í sumar og vel þess virði að sækja staðinn heim.

„Þótt nokkur fækkun gesta hafi orðið í júní miðað við síðastliðið ár, þá komu samt um það bil 200 manns á Hrafnseyri þjóðhátíðardaginn 17. júní og var hátíðarathöfninni streymt í fyrsta skipti, þökk sé Háskólasetri Vestfjarða sem ávallt útskrifar nemendur sína á Hrafnseyri þennan dag ásamt Háskólanum á Akureyri. Daginn eftir kom einnig hópur fólks til að vera við opnun listsýningar Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur sem heldur listasýningu á Hrafnseyri í sumar, en Anna er ein fjögurra listamanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu Staðir/Places á Vestfjörðum í sumar og voru sýningar þessara listamanna opnaðar samdægurs þann 18. júní síðastliðinn, í Selárdal, Skrímslasetrinu á Bíldudal, í Fossfirði og á Hrafnseyri.

   Undanfarnar vikur hafa svo tveir ungir menn, þeir Henry Fletcher frá Englandi og Jay Simpson frá Bandaríkjunum, dvalið á Hrafnseyri og unnið við að kynna og auglýsa bók sína „Walking and Wayfinding in the Westfjords of Iceland“ í heimalöndum sínum. Bókin verður einnig kynnt og auglýst hér á landi innan tíðar. (sjá hér).

Þar með sýna þeir félagar í verki að þeir þurfa ekki að vera staðsettir í Englandi eða Bandaríkjunum til að stofna til auglýsinga- og kynningarátaks í þessum löndum heldur gera þeir það auðveldlega héðan frá Hrafnseyri, sem segir dálítið um þá möguleika sem staðurinn hefur upp á að bjóða.

   Nemandi í mannfræði við Háskóla Íslands hefur einnig dvalið hér á Hrafnseyri í viku tíma í júní við vinnu í doktorsritgerð sinni og annar nemandi í safnafræðum er svo væntanlegur í júlí til tveggja vikna dvalar við vinnu í doktorsritgerð sinni.    

Björn Erlingsson kemur einnig í júlí með þrjá starfsnema frá Toulon og Brest i Frakklandi til vikudvalar á Hrafnseyri. Ætlunin er að vinna við útreikninga og framsetningu dreyfingu sjávargerða síðuðstu áratugi við Ísland og áhrif þeirra a frumframleiðni í hafinu, auk útreikninga á plöntu og dýrasvifi á veiðislóð.

   Í ágúst koma svo fjórir fornleifafræðinemar ásamt tveim erlendum prófessorum frá Bradfordháskóla í Bretlandi á vegum Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings, sem stjórnað hefur uppgröftri undanfarin ár hér á staðnum og á nágrannabænum Auðkúlu. Hópurinn mun dvelja á Hrafnseyri í mánaðartíma við uppgröft og námskeiðshald. Einnig verða opin fyrirlestrarkvöld þar sem innlendir og erlendir gestafyrirlesarar mun fjalla um rannsóknir sinar. Fyrirlestrarnir verða opnir almenningi og auglýstir síðar.

Dagskrá Sumarháskólans á Hrafnseyrar verður því fjölbreytt í sumar.“

DEILA