Hallsteinsnes: greiddar 24 m.kr. fyrir vegagerð

Hallsteinsnes séð til austurs á milli Djúpifjörður and Þorskafjörður, Mynd: Mats Wibe Lund.

Vegagerðin greiðir eigendum Hallsteinsness rúmar 24 m.kr. í bætur fyrir land og önnur réttindi vegna vegagerðar um land jarðarinnar. Samningar náðust í febrúar síðastliðnum.

Í samningnum er fyrirvari um mögulega hækkun bótanna ef samningar við landeigendur annarra jarða vegna sömu vegaframkvæmdar eða úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta verði um hærri bætur.

Vegagerðin kaupir 273.920 fermetra land úr jörðinni undir nýjan veg. Annars vegar fyrir nýjan Vestfjarðaveg 60, 223.619 fermetra spildu sem er 5.580 metra löng, 40 metra breið, 20 metra til hvorrar handar frá miðlínu vegar og hins vegar 50.301 fermetra fyrir tengiveg inn í Djúpadal, 1695 metra langa og 30 metra breiða, 15 metra til hvorrar handar frá miðlínu.

Þá fær Vegagerðin heimild til efnisnáms allt að 49.000 rúmmetra úr tilgreindri námu og afnot af tveimur 10.000 fermetra svæðum undir vinnubúðir og athafnasvæði.

Í bætur eru greiddar 22 m.kr. og 2,2 mkr. fyrir efnisnámið, samtals 24,3 mkr.

Greiddar eru 9,6 mkr. fyrir land undir veginn, 6,2 mkr. fyrir önnur áhrif á land, 2 mkr. fyrir óhagræði af landskiptingu, 2.5 mkr. í álag fyrir nýtt land og 1,4 mkr. í álag fyrir kjarrivaxið land. Loks eru greiddar 360 þús kr fyrir bráðabirgðaafnot lands.

Í samningnum eru ákvæði um að Vegagerðin munu leggja ræsi undir veginn þar sem aðstæður krefjist þess, á tilgreindum stöðum, þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara meðfram veginum og sjá til þess að frístundahús landeigenda í Hallsteinsnesi geti tengst strengjunum. Þá verði heimreiðin lagfærð eða lögð ný án aukakostnaðar fyrir landeigendur.

Bótafjárhæðin hefur verið greidd.

DEILA