Hafró: aðeins 3 strokulaxar úr eldi í fyrra

Hafrannsóknarstofnun hefur birt samantekt vöktunar vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna árið 2020.

Tilefni vöktunarinnar er sjókvíaeldi á laxi sem er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. „Eldinu fylgja áhættuþættir sem taldir eru geta ógnað stöðu villtra laxastofna hér á landi, t.d. hvað varðar erfðablöndun“ segir í skýrslunni.

Vöktuninni má skipta niður í nokkra þætti, vöktun með fiskteljurum, greiningu meintra strokulaxa úr eldi sem veiðast í ám, upprunagreiningu laxa með hreisturrannsóknum og rannsóknir á erfðablöndun.

Í fyrra bárust aðeins þrír strokulaxar til Hafrannsóknarstofnunar í upprunagreiningu. Einn lax úr Seyðisfirði (Austfjörðum), annar úr Staðará í Steingrímsfirði (Vestfirðir) og sá þriðji úr Víðidalsá í sama firði. Erfðagreining staðfesti eldisuppruna allra fiska. Fiskurinn úr Víðidalsá reyndist vera frá Dýrafirði, Austfjarðalaxinn var þaðan, úr eldi í Berufirði en ekki tókst að greina uppruna þess þriðja.

Fjórar eldisstöðvar eru með frjóan lax í sjö fjörðum og sett voru út tæplega 11 milljónir seiða í fyrra. Heildarframleiðslan af laxi til slátrunar var rúmlega 32 þúsund tonn 2020.

Engin hreisturssýni úr eldislaxi

Þá er safnað hreistursýnum af laxi til greiningar og má fá upplýsingar um erfðaefni þeirra og þannig upplýsingar hvort um sé að ræða eldislax eða villtan.

Alls bárust 1207 hreistursýni af laxi úr íslenskum veiðiám árið 2020. Sýni komu til greiningar úr 19 ám, flestum á Vesturlandi (tafla 3). Ekki er vitað til þess að lax með hreistursmynstursem benti til uppruna úr sjókvíaeldi hafi komið fram í sýnunum frá 2020, en endanlegar niðurstöður aldursgreiningar liggja þó ekki fyrir í öllum tilfellum.

Loks má nefna að í fyrra var 1973 erfðasýnum af laxaseiðum safnað í 31 ám. Flest sýnanna hafa verið send í erfðagreiningu til Noregs og niðurstaða liggur ekki fyrir. Tekin voru sýni bæði úr Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi.

Villti stofninn 35 þúsund göngufiskar

Meðaltal heildargöngu laxa á tímabilinu 1971‐2019 eru rúmlega 80 þúsund laxar og hrygningarstofn rétt undir 40 þúsund löxum. Síðustu ár hafa þessar tölur verið vel undir meðaltali og árið 2019 var gangan áætluð 35 þúsund fiskar og hrygningarstofninn aðeins 22 þúsund fiskar.

DEILA