Fasteignagjöld svonefnds viðmiðunarhúss eru með því hæsta á landinu á eyrinni í Skutulsfirði. Heildargjöldin eru 444 þúsund krónur og eru þau sjöttu hæstu á landinu. Hæst eru gjöldin á Seltjarnarnesi 489 þúsund krónur. Fasteignamat hússins með lóðamati er 87 milljónir króna sé það staðsett á Seltjarnarnesi en 36 m.kr. á Ísafirði.
Þetta kemur fram í skýrslu Þjóðskrár Íslands sem unnin var fyrir Byggðastofnun.
Fasteignagjöldin á Seltjarnarnesi eru því sem svarar 5.620 kr af hverri milljón kr fasteignarinnar en rúmlega tvöfalt hærri á Ísafirði eða 12.333 kr af hverri milljón kr.
Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2021 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem Þjóðskrá reiknar og gildir frá 31. desember 2020.
Til fasteignagjalda teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald. Mismunandi álagningarreglur eru í sveitarfélögunum og er fasteignaskattur t.d. frá 0,18% – 0,625% af fasteignamatinu. Á höfuðborgarsvæðinu er fasteignaskatturinn mældur í % mun lægri en t.d. á Vestfjörðum.
Hæst fasteignagjöld á Ísafirði
Hæst eru fasteignagjöldin á Vestfjörðum á eyrinni í Skutulsfirði 444 þúsund kr. en lægst á Flateyri, rétt innan við 200 þúsund kr.
þús kr | ||
Ísafjörður eldri byggð | 444 | |
Ísafjörður nýrri byggð | 393 | |
Patreksfjörður | 373 | |
Bíldudalur | 335 | |
Tálknafjörður | 317 | |
Bolungavík | 274 | |
Hólmavík | 234 | |
Súðavík | 222 | |
Hnífsdalur | 220 | |
Þingeyri | 215 | |
Suðureyri | 200 | |
Flateyri | 198 | |
Ekki eru upplýsingar um Reykhóla og Drangsnes. |