Efla kaupir Tækniþjónustu Vestfjarða

EFLA hf. og eigendur Tækniþjónustu Vestfjarða ehf. hafa undirritað samning um að EFLA kaupi allt hlutfé Tækniþjónustunnar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eflu.

Tækniþjónusta Vestfjarða var stofnuð 1973 og hefur starfað óslitið síðan með aðsetur á Ísafirði.  Fyrirtækið hefur unnið að verkefnum víða á Vestfjörðum, sem og í öðrum landshlutum. Verkefni hafa aðallega verið á sviði verkfræðihönnunar mannvirkja, gerð kostnaðaráætlana, tjónamats, mælinga og útsetninga, gerð eignaskiptasamninga og útboðsgagna ásamt umsjón og eftirliti með útboðsverkum.

Samúel Orri Stefánsson, framkvæmdastjóri Tækniþjónustunnar segist afar ánægður með kaup EFLU á fyrirtækinu. Með þeim verði hægt að bjóða Vestfirðingum enn öflugri verkfræði- og tækniþjónustu á breiðari grundvelli sem nær til samfélagsins alls.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, fagnar kaupunum.  Það sé stefna fyrirtækisins að bjóða öfluga þjónustu á landsbyggðinni sem byggi á góðri samvinnu allra starfsstöðva. Kaupin á Tækniþjónustu Vestfjarða falli einstaklega vel að þeirri stefnu og sé liður í að styrkja  nærþjónustu EFLU um allt land. Fyrirtækin hafi átt í mjög góðu samstarfi um árabil og því hafi kaupin verið eðlilegt næsta skref.

Viðskiptavinir EFLU spanna flest svið samfélagsins og endurspegla  í raun allt atvinnulífið í sinni fjölbreyttustu mynd. Kjarninn í þjónustunni snýr að ráðgjöf við uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins ásamt stuðningi við framþróun atvinnulífsins.

EFLA er leiðandi þekkingarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum helstu sviðum verkfræði, tækni og tengdra greina. Hlutverk EFLU er að koma fram með lausnir, sem stuðla að framförum viðskiptavina og efla samfélög og er samfélagsleg ábyrgð samofin tilgangi fyrirtækisins. EFLA byggir framlag sitt á öflugum mannauði með yfirgripsmikla þekkingu og víðtæka reynslu en þar starfa um  400 starfsmenn. Starfsfólk EFLU leitar stöðugt leiða til að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með framsýnum lausnum og verðmætri ráðgjöf.  Á Íslandi eru höfuðstöðvar félagsins að Lynghálsi Reykjavík, en EFLA heldur úti starfsstöðvum á Selfossi, Hellu, Reykjanesbæ, Hvanneyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Þórshöfn, Húsavík, Akureyri og nú á Ísafirði. Erlendis starfrækir EFLA dóttur- og hlutdeildarfélög í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Skotlandi og Tyrklandi.

DEILA