Dynjandi í kjölfar Kófsins

Í lok júnímánaðar bárust fréttir af því að Vegagerðin hefði fallið frá því að bjóða út stærsta áfanga nýs vegar yfir Dynjandisheiði á þessu ári. Skýringin var einföld: „Við eigum ekki pening.“

Samkvæmt frétt BB sem birtist þann 28. júní sl. mun þessi frestun á útboði ekki hafa áhrif á heildartíma verksins, endurskoðuð samgönguáætlun er óbreytt varðandi Dynjandisheiði og framkvæmdum við nýjan veg á að ljúka árið 2024. Sá verkhluti, sem vonast var til að færi í útboð nú í sumar, verður boðinn út á næsta ári og verkið á að halda áfram í samræmi við áætlanir. Það er vonandi að rétt reynist og þetta gangi allt saman eftir, en í ljósi þess sem á undan er gengið hljóta Vestfirðingar að vera á varðbergi. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að fara varlega í að treysta fyrirheitum stjórnvalda þegar kemur að vegagerð á Vestfjörðum. Stóra klúðrið í þessu máli er auðvitað það að vegagerð á Dynjandisheiði skuli teygjast í fimm ár eftir að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng lauk og í átta ár eftir að þær hófust. Skorturinn á heildarsýn er hrópandi.

Það hlýtur að vekja athygli að á fimm ára framkvæmdatíma vegalagningar yfir Dynjandisheiði eiga 55% kostnaðarins að falla á tvö síðustu ár framkvæmdatímans en á árunum 2023 og 2024 eiga samtals að greiðast 3.200 m.kr af 5.800 m.kr heildarkostnaði. Það er því síður en svo traustvekjandi að núna strax á fyrri hluta framkvæmdatímans skuli söngurinn um skort á fjármunum strax vera farinn að heyrast.

Það er heldur ekki traustvekjandi að á sama tíma skuli ríkisstjórnin setja fram fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 þar sem gert er ráð fyrir stórfelldum svokölluðum „afkomubætandi ráðstöfunum.“ Umfang þessara ráðstafana á að vera 12 til 50 milljarðar króna á ári, eftir sviðsmyndum og afkomuþróun en grunnsviðsmyndin gerir ráð fyrir 34 milljörðum á ári sem þýðir 102 milljarða samdráttur, uppsafnað árið 2025! Þetta leggur ríkisstjórnin fram algerlega án útfærslu og skiptingin milli niðurskurðar og tekjuöflunar liggur ekki fyrir. Þetta hugtak „afkomubætandi ráðstafanir“ er nefnilega ekkert annað en fínt orð yfir samdrátt í rekstri ríkisins, niðurskurð og skattahækkanir. Saga núverandi ríkisstjórnar sýnir okkur að þær skattahækkanir munu ekki lenda á þeim sem eiga mest og þéna mest heldur öllum almenningi, lág- og millitekjuhópunum í okkar samfélagi.

Það er svo undir hverjum og einum komið að meta hversu trúverðugt það er og hversu líkleg núverandi ríkisstjórn er til að standa við það að veita rúmum þremur milljörðum króna til vegagerðar á Dynjandisheiði á sama tímabili og sama ríkisstjórnin ætlar að standa í niðurskurðaraðgerðum upp á tugi milljarða króna.

Samfylkingin hefur mótmælt harðlega þeirri sýn niðurskurðar og stöðnunar sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og lagt fram ábyrgari leið sem snýst um að beita ekki of hörðum aðgerðum of snemma. Þessi áform ríkisstjórnarinnar um „afkomubætandi ráðstafanir“ eru ekki í samræmi við þá sýn til COVID-kreppunnar sem ráðandi er erlendis. Má þar nefna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt ríki með þróuð hagkerfi til að taka lán eftir þörfum fremur en að grípa til niðurskurðar eftir að faraldrinum linnir og víðast hvar leggja stjórnvöld áherslu á að auka umsvifin í hagkerfinu með innviðafjárfestingum. Áform ríkisstjórnar Íslands eru þannig algerlega úr takti við umheiminn og þau eru ekki líkleg til að gagnast íslensku samfélagi til viðspyrnu í kjölfar COVID-kreppunnar. Nú og á næstu árum er brýnt að ríkið ráðist í viðamikla uppbyggingu innviða því að öðrum kosti munu innviðaskuldir hlaðast upp, hvort sem er í vega- og flutningskerfum eða í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Nú er lag, því lánskjör ríkisins hafa aldrei verið eins hagstæð og nú. Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting mun gegna stóru hlutverki í að koma okkur upp úr atvinnukreppunni. Nýr vegur yfir Dynjandisheiði er skólabókardæmi um slíka fjárfestingu því þessi framkvæmd er ekki aðeins þjóðhagslega arðbær, hún er bráðnauðsynleg fyrir atvinnulíf og lífsgæði fólks á Vestfjörðum.

Valgarður Lyngdal Jónsson

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

DEILA