Djúpið: leyfi Háafells kært til úrskurðarnefndar

Fjórar kærur hafa borist til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál vegna leyfis Háfells til eldis á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Tvær kærur varða útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar til Háafells fyrir 6.800 tonna eldis á frjóum laxi og aðrar tvær er vegna rekstrarleyfisins sem Matvælastofnun gaf út fyrir sömu starfsemi.

Annars vegar er það Arnarlax sem kærir bæði leyfin og hins vegar Laxinn lifi, íslenski náttúruverndarsjóðurinn ( IWF) og Náttúruverndarsamtök Íslands sem standa saman að kæru á starfsleyfi Umhverfisstofnunar og kæra einnig rekstrarleyfi Matvælastofnunar.

Þar sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun gefa út leyfin eru stofnanirnar kærðar og þess krafist að leyfin verði felld úr gildi.

Háafell sem er leyfishafinn er ekki aðili að málinu.

Arnarlax krefst þess að lagt verði fyrir Umhverfisstofnun að afgreiða umsóknir um starfsleyfi í þeirri tímaröð sem umsækjendur (Arnarlax, Arctic Fish og Háafell) skiluðu matsskýrslum sínum inn til Skipulagsstofnunar. Jafnframt vill Arnarlax að framkvæmdir byggðu á starfsleyfinu verði stöðvaðar meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Bent er á í kærunni til stuðnings kröfunni um stöðvun til bráðabirgða að Háafell gæti framselt leyfið til þriðja aðila meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að sá aðili gæti mögulega haft önnur og hraðari áform um eldisstarfsemina en Háafell. Ef slíkt gerðist gæti skapast skaðabótaskylda fyrir ríkið fyrir útlögðum kostnaði ef svo færi að kærar yrði tekin til greina.

Arnarlax byggir mál sitt á því að lögum samkvæmt sé ekki hægt að leggja inn umsókn um starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar er fengið á matsskýrslu um eldisframkvæmdirnar. Telur fyrirtækið að þar sem fullbúin matsskýrsla hafi fyrst legið fyrir hjá Arnarlax hefði Skipulagsstofnun átt að gefa álit sitt á henni á undan áliti stofnunarinnar á síðari matsskýrslum. Segir að matsskýrsla Háafells hafi síðust verið tilbúin en samt fyrst fengið álit Skipulagsstofnunar. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar sé ekki í samræmi við lög og hafi ráðið því hvaða fyrirtæki muni fá leyfi til eldis í Ísafjarðardjúpinu og hvaða fyrirtæki verði útundan. Heimilt er að gefa út leyfi fyrir 12.000 tonna eldi en sótt var um 26.800 tonn. Matvælastofnun hefur afgreitt umsókn Háafells að fullu 6.800 tonn og hyggst næst afgreiða umsókn Arctic Fish sem sótti um 10.000 tonn en mun þá fá það sem eftir stendur af 12.000 tonnunum eða 5.200 tonn. Það þýðir að Arnarlax fær ekkert. Sama mun afgreiðsla Skipulagsstofnunar hljóða upp á.

Arnarlax gagnrýnir stjórnsýslu Skipulagsstofnunar harðlega og telur hana ekki í samræmi við lög. Bent er sérstaklega á að stofnunin skuli afgreiða fullbúna matsskýrslu innan fjögurra vikna en að álit Skipulagsstofnunar hafi ekki legið fyrir fyrr en eftir 26 vikur. Með því að seinka áliti á matsskýrslu Arnarlax og á sama tíma flýta afgreiðslu hinna umsóknanna hafi Skipulagsstofnun komið í veg fyrir að Arnarlax gæti lagt inn fyrst umsókn um starfs- og rekstrarleyfi.

Hinar kærurnar byggja í fyrsta lagi á því ýmsir formgallar hafi verið á matsskýrslu Háafells og meðferð Skipulagsstofnunar á þeim. Í öðru lagi er tekið undir athugasemdir Arnarlax og í þriðja lagi að rökstuðningur Umhverfisstofnunar fyrir starfsleyfinu og rökstuðningur Matvælastofnunar fyrir rekstrarleyfinu sé ófullnægjandi.

Þrátt fyrir kærurnar halda leyfin gildi sínu og Háafell getur haldið áfram sínum undirbúningi að eldinu, nema að úrskurðarnefndin samþykkti stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

Miðað er við að nefndin afgreiði kærur á 3 – 6 mánuðum.

DEILA