Burt með einnota plastvörur

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið berst af krafti gegn einnota plastvörum og vill minni notkun á plasti og hefur nú tilkynnt um bann við að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað og tekur bannið gildi frá 3. júlí.

Meðal vara sem bannað er að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, plasthnífapör og -diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti eru einnig óheimil. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.

Bannið  byggir á breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem Alþingi samþykkti árið 2020 og miðar að því að draga úr notkun óþarfa plasts í samfélaginu. 

Þá er ekki heimilt að afhenda án endurgjalds einnota bolla, glös og matarílát úr plasti t.d. þegar matur og drykkur er seldur til brottnáms (e. take-away) og skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.

Fáanlegar eru á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í stað þeirra vara sem breytingarnar taka til.

Þá hafa verslanir staðið sig vel í að hætta að bjóða upp á einnota plastpoka á afgreiðslusvæðum (kassasvæði) í samræmi við plastpokabannið. Mikilvægt er að dregið verði enn frekar úr notkun á einnota burðarpokum úr öðrum efnum, svo sem pappír, og ráðuneytið mun í haust halda áfram vinnu með versluninni og Umhverfisstofnun við að innleiða margnota lausnir.

DEILA