Skráð atvinnuleysi mældist samkvæmt bráðabirgðatölum 7,3% í júní en var 9,1% í maí. Nemur lækkunin á milli mánaða því 1,8 prósentustigi, en á milli apríl og maí lækkaði almennt skráð atvinnuleysi um 1,3%, sem var mesta lækkun milli mánaða frá árinu 1994. Í janúar á þessu ári mældist atvinnuleysi 11,6% og hefur atvinnuleysi því minnkað um 4.3% á árinu.
Atvinnulausum fækkaði um tæplega 3,300 milli mánaða á landsvísu en fækkaði um 2,400 á milli apríl og maí. Alls nemur fækkunin því 5,700 einstaklingum frá því í apríl. Fjöldi þeirra sem skráður er án atvinnu hjá Vinnumálastofnun minnkaði í öllum landshlutum milli maí og júní, fyrir utan Norðurland vestra.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 13,7% og minnkaði úr 18,7% í maí. Næst mest var atvinnuleysið 7,9% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 9,4% frá því í maí. Minnst var atvinnuleysi í júní á Norðurlandi vestra, 2,3%, Vestfjörðum 2,6% og á Austurlandi 2,8%. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurlandi eða um 30% að jafnaði. Minnst dró úr atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu eða um 14%. Á landsbyggðinni í heild minnkaði atvinnuleysi um 25%.