Árneshreppur: framkvæmdir hafnar við þrífösun og ljósleiðara

Trékyllisheiði.

Framkvæmdir eru hafnar við lagningu þriggja fasa rafmagnsstrengs og við ljósleiðara milli Steingrímsfjarðar og Djúpavíkur í Reykjarfirði. Verið er að leggja saman þessa strengi frá Trékyllisheiði og suðurábóginn að Bólstað í Steingrímsfirði. þegar því veri verður lokið verður búið að leggja strengina norður í Reykjarfjörð að Djúpuvík.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps sagði að hvort tveggja væri mikið framfaramál fyrir hreppinn. Það væri fólk í sveitinni sem ynni mikið á netinu og eins væri mikil bót að þriggja fasa rafmagni fyrir búskapinn og höfnina. Hún bjóst við að tengt yrði í húsin í Djúpuvík nú í sumar og svo yrði haldið áfram þaðan norður í sveitina eftir því sem unnt væri. Áformað væri að klára verkefnið á næsta ári.

Það er Radiover sem annast lagningu ljósleiðarans og Orkubú Vestfjarða leggur raflínuna.

Fjarskiptasjóður styrkir lagningu ljósleiðarans og eins fær Orkubú Vestfjarða framlag frá ríkinu til þrífösunar í sveitum.

DEILA