2.375 tonn af byggðakvóta til Vestfjarða

Sæli BA 333. Mynd: Kvótamarkaðurinn.

Á yfirstandandi fiskveiðiári var úthlutað 2.375 tonnum af byggðakvóta til Vestfjarða. Alls voru 4.902 tonn til ráðstöfunar auk 1.230 tonna frá fyrra ári eða samtals 6.032 tonn mælt í þorskígildum.

Verðmæti þessa kvóta miðað við leiguverð á 1 kg af þorski frá 1.9.2020 til 26.7. 2021 er um 1.600 milljónir króna. Hlutur Vestfirðinga er að verðmæti 627 milljónir króna. Byggðakvóta er úthlutað endurgjaldslaust.

Enn hefur ekki öllum byggðakvótanum verið ráðstafað á einstök skip og báta en af þeim sem hafa fengið úthlutun fær Egill ÍS mest eða 254 tonn mælt í þorskígildum. Leiguverð kvótans er um 67 m.kr. reiknað samkvæmt leiguverði í þorski. Athuga ber að byggðakvóta er úthlutað í ýmsum tegundum og meðalleiguverðið getur verið frábrugðið þorskverðinu.

Sæli BA fær næsthæstan byggðakvóta 236 tonn og verðmætið er 62 m.kr. Páll Pálsson ÍS og Klakkur ÍS eru í þriðja sæti og fjórða sæti yfir stuðning ríkisins og fá 178 tonn hvor sem eru að verðmæti 47 m.kr. Fimmta skipið sem fær meira en 100 tonna byggðakvóta er Stefnir ÍS með 106 tonn að verðmæti 28 m.kr.

Alls eru það 8 sveitarfélög á Vestfjörðum sem fá byggðakvóta. Aðeins Reykhólahreppur er undanskilin. Langmest fer til Ísafjarðarbæjar eða 1.270 tonn. Tálknafjörður fær næstmestan stuðning 483 tonn og Súðavík fær 225 tonn. Strandabyggð (Hólmavík) fær 154 tonna byggðakvóta, Vesturbyggð 136 tonn, Drangsnes 76 tonn, Bolungavík 16 tonn og Norðurfjörður í Árneshreppi 15 tonn.

Innan Ísafjarðarbæjar skiptist byggðakvótinn á öll fimm byggðarlögin innan sveitarfélagsins. Mest fer til Flateyrar 392 tonn, til þingeyrar 357 tonn, 203 tonn til Suðureyrar, 178 tonn til Hnífsdals og 140 tnn til Ísafjarðar.

Byggðakvóta er ætlað að mæta vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

DEILA