Valgarður Jónsson, Samfylkingu: vegalagning í Reykhólasveit endanleg en ekki sannfærður um að nauðsynlegt sé að virkja á Vestfjörðum

Í framhaldi af ummælum Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, alþm Samfylkingarinnar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi á mánudagskvöldið hafði Bæjarins besta samband við Valgarð Lyngdal Jónsson, bæjarfulltrúa Akranesi, sem er oddviti lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og innti hann eftir því hvort hann eða Samfylkingin í kjördæminu væru sammála viðhorfum Rósu.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir fann að því að Vinstri grænir hefði guggnað í hápólitískum umhverfismálum og nefndi vegagerð um Teigsskóg og áform um virkjun Hvalár. Vildi hún að bæði málin hefðu verið stöðvuð.

Svar Valgarðs fer hér á eftir. Millifyrirsagnir eru Bæjarins besta.

„Samfylkingin er stór flokkur, breiðfylking fólks sem á þá sameiginlegu sýn að hér á landi megi auka jöfnuð og lífsgæði almennings með aðferðum jafnaðarstefnunnar. Eðli málsins samkvæmt getur fólk í slíkum hópi síðan haft allskonar ólíkar skoðanir á ýmsum málum, þótt í grunninn séum við samherjar í öllum stórum málum sem varða lífskjör þessarar þjóðar.

Teigsskógur: veglínan endanleg

Sem oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fagna ég því að loksins sé komin niðurstaða varðandi vegalagningu í Reykhólasveit. Sú niðurstaða sem þar fékkst er endanleg og í sjónmáli er að þarna komi loks viðunandi vegur fyrir vegfarendur og vöruflutninga í stað malarveganna um Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Þetta verða löngu tímabærar vegabætur og þeim ber að fagna.

Hvalárvirkjun: ekki sannfærður um nauðsyn þess að virkja á Vestfjörðum

Hvað Hvalárvirkjun varðar, þá er það hárrétt hjá Rósu Björk að þar hefur ekki verið gefin út nein pólitísk lína. Ekkert svar er gefið, heldur treyst á lagaþrætur og dóma til að tefja málið. Sjálfur verð ég að viðurkenna að ég var ekki hrifinn af þeim virkjunaráformum sem þar voru kynnt, með gríðarlegri röskun á bæði landi og vatnasviði og svo að lokum yrðu engin störf sköpuð í Árneshreppi eftir að virkjunin væri komin í gagnið. Hins vegar skil ég og virði skoðun þeirra sem litu til þessara hugmynda sem möguleika til að lyfta atvinnulífi á svæðinu upp og auka orkuöryggi á Vestfjörðum. Ég er ekki sannfærður um að til þess að bæta orkuöryggi á Vestfjörðum sé nauðsynlegt að virkja á Vestfjörðum. Raforka er flutt um langar vegalengdir á þessu landi og ætti allt eins að vera hægt að flytja hana til Vestfjarða, rétt eins og ætlað var að flytja orkuna frá Hvalárvirkjun frá Vestfjörðum til að knýja stóriðju á Suðurnesjum.

Vinstri græn ekki náttúruverndarflokkur

Rósa Björk benti réttilega á í ræðu sinni að Vinstri græn hafa gefið sig út fyrir að vera sérstakur náttúruverndarflokkur, en nú bregður svo við að í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi hafa þau ítrekað gefið eftir og það er sérstaklega áberandi í náttúruverndarmálum. Ef Vinstri græn væru samkvæm sjálfum sér, þá hefðu þau átt að berjast af fullum krafti gegn báðum þessum málum. Það hafa þau ekki gert og því tel ég alveg óhætt fyrir þau að fjarlægja þá skrautfjöður úr hatti sínum að kalla sig einhvern sérstakan flokk náttúruverndar.“

DEILA