Umhverfisstofnun: þarf samþykki stofnunarinnar fyrir jarðstreng frá Mjólká ef þjóðgarður verður til

Í bréfi Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar dags 26. apríl kemur fram að verði af stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum í sumar muni þurfa leyfi Umhverfisstofnunar fyrir því að leggja jarðstreng frá Mjólká að landtaki í Auðkúlubót þar sem strengurinn verður að hluta innan þjóðgarðsins.

Umhverfisstofnun er beðin um umsögn um framkvæmdina jarðstrengur frá Mjólká til Bíldudals og kemur þetta fram í svarbréfi stofnunarinnar. Frá Auðkúlubót er svo ætlunin að leggja sæstreng að Hauganesi við Bíldudalsvog. Umhverfisstofnun lætur það koma fram í bréfinu að samþykki stofnunarinnar þurfi fyrir sæstrengnum.

Það er mat Umhverfisstofnunar að strenglagningin hafi helst umhverfisáhrif þar sem farið er um votlendi og vistgerðir sem hafa hátt verndargildi en unnt sé að draga verulega úr neikvæðum áhrifum.

Í tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarðinn sem auglýstar voru segir í 13. grein að allar athafnir og framkvæmdir í þjóðgarðinum séu bannaðar sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist.

Þá vaknar spurningin hvort Umhverfisstofnun muni líta svo á að strenglögnin falli að markmiðum friðlýsingarinnar. Við það mat stofnunarinnar virðist sem ekki eigi að líta til annars tilgangs með lagningu strengsins.