Þjóðgarður: deilt um möguleika til virkjunar

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og fulltrúi sveitarfélagsins í starfshópi um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum segir að lokafundur starfshóps um stofnun þjóðgarðsins verði á morgun, þann 10. júní nk. „Á þeim fundi verður vonandi hægt að ljúka endurskoðun friðunarskilmálanna og kynna þá í framhaldinu“ segir í svari frá Birgi við fyrirspurn Bæjarins besta.

Hvorki Birgir né Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, sem er fulltrúi Vesturbyggðar í starfshópnum, vilja birta þær breytingar á friðunarskilmálunum, sem fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa kynnt. Umhverfisstofnun segir tillögurnar vera vinnuskjal sem verði ekki birt fyrr en þær hafa verið samþykktar af starfshópnum og sveitarfélögunum.

Þá hefur Umhverfisráðuneytið lagt fram viljayfirlýsingu sem fjallar um áform ríkisins varðandi uppbyggingu í tengslum við þjóðgarðinn. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að yfirlýsingin verði ekki birt fyrr en hún hefur hlotið samþykki þeirra sem að henni koma. Það eru auk ráðuneytisins sveitarstjórnir Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar. Ísafjarðarbær hefur þegar samþykkt yfirlýsinguna og bæjarráð Vesturbyggðar ræddi hana á fundi sínum í gær og samþykkti hana fyrir sitt leyti og fer málið nú til bæjarstjórnar.

Friðlýsing bannar framkvæmdir

Í tillögu að friðlýsingarskilmálum sem Umhverfisstofnun hefur lagt fram og birt segir að í „þjóðgarðinum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist.“ Þó er viðhald og þjónusta við raflínur á svæðinu heimil án leyfis Umhverfisstofnunar. Einnig segir í skilmálunum að innviðauppbygging svæðisins skuli fara eftir skipulagi sveitarfélaga.

Skilmálarnir hafa verið gagnrýndir fyrir það að takmarka eða koma í veg fyrir nauðsynlegar framkvæmdir í vegagerð og lagningu raflína svo og virkjunaráform. Bent er á að verið sé að leggja nýjan veg yfir Dynjandisheiði og brýn þörf sé á því að endurnýja 40 ára gamlar raflínur sem liggja um væntanlegan þjóðgarð. Í svörum frá Birgir Gunnarssyni, bæjarstjóra kemur fram að í skilmálunum eru „t.d. skýrt ákvæði hvað varðar endurnýjun á raflínum og lagningu nýrra raflína innan svæðisins. Auk þess er ákvæði varðandi nauðsynlega endurnýjun og uppbygginu í vegamálum á svæðinu.“

Vatnsfjarðarvirkjun

Í athugasemdum frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Orkubúi Vestfjarða er lýst áhyggjum af því að með stofnun þjóðgarðs verði lokað fyrir virkjun innan svæðisins og er farið fram á að skrifað verði í friðlýsingarskilmálana heimild til þess að rannsaka virkjunarkosti á svæðinu. Orkubúið hefur bent á að í lögum um rammaáætlun komi skýrt fram að virkjanir sem eru stærri en 10 MW séu óheimilar á þessu svæði eftir að þjóðgarður hefur verið stofnaður nema að tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði.

Á væntanlegu þjóðgarðssvæði hefur Orkubú Vestfjarða rannsóknarleyfi fyrir svokallaðri Helluvirkjun. Hún er 2-3 MW og er ekki nægilega stór til þess að gera gæfumun fyrir nauðsynlega orkuöflun. Eftir að áform um Hvalárvirkjun voru sett í bið hefur Orkubúið tekið fram að nýju til skoðunar virkjunarkosti sem gætu bætt úr alvarlegum vanda á Vestfjörðum. Svæðið byggir að miklu leyti á aðfluttu rafmagni eftir gamalli Vesturlínu og afhendingaröryggi er verulega ábótavant. Tvöföldun Vesturlínu er framkvæmd upp á 160 km og kostar 14 – 16 milljarða króna og þykir ekki líklegt að fé fáist til þess. Elías Jónatansson Orkubússtjóri segir að horft sé til Vatnsfjarðarvirkjunar sem gæti gefið 20 – 30 MW. Yrði af henni myndu aðstæður breytast mjög til batnaðar á Vestfjörðum og framkvæmdin hefur þann kost að vera nálægt núverandi línum og Mjólkárvirkjun. Kostnaður við virkjuna yrði mun minni en við tvöföldun Vesturlínu auk þess sem orkukaupendur myndu greiða hann en kostnaður við Vesturlínu félli líklega á skattgreiðendur.

Það er ósk Orkubúsins að heimild til rannsókna á þeim virkjunarkosti verði sett inn í friðlýsingarskilmálana. Þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segir að hvað varðar mögulega orkuöflun innan svæðisins sé ekkert í skilmálunum sem komi í veg fyrir að virkjanakostir verði rannsakaðir í framtíðinni. Því er Orkubúið ósammála hvað varðar virkjanir stærri en 10 MW og vísar í lögin um Rammaáætlun sem fyrr er vitnað til. Verði heimildin ekki skrifuð í friðlýsingarskilmálana sé málið sjálfstopp að mati Orkubúsins.

Elías segir að verði heimild til rannsóknar á Vatnsfjarðarvirkjun fyrir hendi muni framkvæmdin sjálf engu að síður alltaf þurfa að fara hefðbundinn farveg með mati á umhverfisáhrifum.

Leyndin yfir breytingartillögum á friðlýsingarskilmálunum vekur upp spurningar um hvers vegna. Svo virðist að vilji sé til þess að tryggja að vegagerð og endurnýjun á raflínum geti orðið eins og að er stefnt en að andstaða sé við athugun á virkjunarkostum. Þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Þá reynir á bæjarfulltrúa í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ. Það er í þeirra höndum að tryggja orkuöflunarhagsmuni Vestfirðinga.

-k

DEILA