Svör Rósu Bjarkar

Borist hafa svör Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, alþm. við fyrirspurnum Bæjarins besta vegna ummæla hennar á eldhúsdegi Alþingis um vegagerð í Teigsskógi og um Hvalárvirkjun.

Ummæli Rósu Bjarkar sem hún var beðin um að skýra frekar voru:

„Kæru landsmenn, loftslags – og umhverfismálin hafa verið í gíslingu Sjálfstæðisflokksins allt þetta kjörtímabil. Þau hafa náð því fram að metnaðurinn væri lítill, lítil skref tekin og engin róttækni leyfð. Og því miður hefur flokkurinn sem leiðir við ríkisstjórnarborðið guggnað yfir fleiri hápólitískum umhverfismálum. Má þar nefna vegalagningu um Teigskóg,  sem um gilda sérlög og hefur að auki sérstaka vernd í náttúruverndarlögum. Engin afdráttarlaus pólitísk lína hefur verið gefin út vegna virkjunaráforma í Hvalá á Ströndum, heldur treyst á lagaþrætur og dóma til að tefja málið.“

Svör Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur eru eftirfarandi og spurningarnar eru feitletraðar:

Telur þú að hætta eigi við vegagerðina og hvaða leið á þá að fara? Þá er spurning hvaða sérlög þú ert að vísa til sem gilda um Teigsskóg.

Allan þann tíma sem ég hef gefið mig að stjórnmálum hef ég barist fyrir umhverfismálum og náttúruvernd. Það var það sem dreif mig upphaflega af stað í að gefa kost á mér í stjórnmál. Ég tók þátt í baráttunni fyrir friðun víðerna á Austurlandi, fyrir friðun Þjórsárvera, hef barist fyrir stofnun Miðhálendisþjóðgarðs og verið ötul talskona á Alþingi fyrir enn djarfari aðgerðum til að sporna gegn áhrifum loftlagsbreytinga og svo mætti áfram telja. Það á því ekki að koma neinum á óvart að ég tali um þau mál þar sem ég tel að náttúruvernd hafi verið látin víkja fyrir öðrum sjónarmiðum. Það er mín skoðun um vegalagningu um Teigskóg, að þar hafi umhverfisverndarsjónarmiðin látið víkja fyrir öðrum sjónarmiðum. Það þýðir þó ekki að ég virði ekki að í mínum stjórnmálaflokki séu ólík sjónarmið um þessi efni og að margir hafi aðrar skoðanir, en ég tala sem kjörinn þingmaður með nokkuð mikinn fjölda atkvæða á bak við mig og mitt þingsæti. Ég vil líka nefna að mér hefði þótt mátt taka meira tillit til, í umræðu og ákvarðanatöku á svæðinu, til íbúa á Reykhólum, atvinnustarfsemi og þjónustu þar með vegalagningu sem næði til Reykhóla eða bætingu á vegum sem liggja þangað. Aðspurð hvort ég telji að hætta eigi við vegalagninguna um Teigskóg, tel ég það ekki vera, þar sem nú þegar er hafin vinna við þá vegagerð.  Sérlögin sem ég er að vísa til sem gilda um Teigskóg eru lög um vernd Breiðafjarðar nr. 54/1995, þar sem svæðið er á náttúruminjaskrá ásamt því sem sérstök vernd skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 á við um svæðið.

Varðandi Hvalárvirkjun , hvernig á að auka raforkuöryggi Vestfirðinga og framboð af rafmagni án Hvalárvirkjunar

Raforkuöryggi Vestfirðinga þarf sannarlega að bæta enda hefur afhendingaröryggi raforku verið einna lakast á Vestfjörðum. Fjárfestingar í innviðum og uppbygging þeirra hefur ekki gengi eftir á undanförnum árum, því miður og úr því þarf sannarlega að bæta. Þar sem ekki er skortur á raforku í landinu og má sækja frekari orku vegna starfsemi á Vestfjörðum í sameiginlegan forða raforku í landinu. Hagkvæmasti og umhverfisvænasti kosturinn í orkubúskap er því að bæta nýtingu orkunnar sem fyrir er.

Í umræðu er núna að skoða Vatnsfjarðarvirkjun nálægt Mjólká sem gæti gefið um 20 MW og bætt verulega ástandið. En sú virkjun yrði innan væntanlegs Þjóðgarðs.

Teldir þú vænlegt að skoðan þann kost?

Ég er sem umhverfisverndarsinni ekki á því að virkja eigi innan þjóðgarða. Að lokum vil ég minna á að ég hef stutt mörg framfaramál fyrir Vestfirðinga á Alþingi á borð við Dýrafjarðargöng og var fyrir skömmu í frábærri heimsókn til að kynna mér það sem er spennandi að gerast í atvinnulífinu á Ísafirði og í Bolungarvík. Í þeirri heimsókn fann ég fyrir mun meiri bjartsýni og framsýni en oft áður en líka hugvitsamlegum nálgunum, krafti og frumkvæði. Þess má geta að þetta var önnur heimsókn mín á kjörtímabilinu til Vestfjarða sem þingmaður til að heimsækja stofnanir, fyrirtækja og annarra aðila í vestfirsku atvinnulífi, en hin heimsóknin var á Suðurfirðina með umhverfis – og samgöngunefnd fyrir rúmum 2 árum þar sem við heimsóttum m.a. fiskeldisfyrirtæki og Dýrafjarðargöng. Það var mjög áhugavert og fræðandi.