Strandveiðar: frumvarp til að tryggja 48 daga í sumar

Fram er komið á Alþingi frumvarp til laga sem er ætlað að tryggja að strandveiðar verði í 48 daga í sumar. Lagt er til að það verði gert með því að sjávarútvegsráðherra flytji veiðiheimildir frá næsta fiskveiðiári allt að 20% af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins, auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins til þessa fiskveiðiárs. Þrátt fyrir þennan tilflutning skal ekki skerða veiðiheimildir dagróðrabáta á næsta fiskveiðiári.

Fyrsti flutningsmaður er Lilja Rafney Magnúsdóttir, en hún tilkynnti um þessa fyrirætlan sína í ræðu á eldhúsdeginum sem var á mánudaginn. Með henni flytja þingmálið Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að þessari aðgerð sé fyrst og fremst ætlað að vinna gegn atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem hefur bitnað á vinnandi fólki hringinn í kringum landið. „Þau sem stunda veiðar innan strandveiðikerfisins hafa sum getað framfleytt sér á annarri vinnu þá mánuði sem strandveiðar eru ekki stundaðar. Með
auknu atvinnuleysi skiptir enn meira máli að fyrirsjáanleiki og vissa sé til staðar í strandveiðum til að tryggja afkomu einstaklinga og fjölskyldna. Markmið aðgerðarinnar er að efla atvinnu og tryggja afkomu fólks vítt og breitt um landið.“

Á síðasta ári voru veiðarnar stöðvaðar 19. ágúst en þá voru búnar þær veiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða. Í ár eru 10.000 af þorski til strandveiða. Í greinargerðinni segir að ólíklegt sé að þessi 10.000 tonn muni tryggja veiðar til ágústloka. Afli fyrstu sjö dagana hafi aukist um 37% frá sömu viðmiðun árið 2020 og allt útlit er fyrir að um 700 bátar stundi strandveiðar í ár. Þykir því nauðsynlegt að heimila viðbót til þess að tryggja að unnt verði að róa alla 12 daga í ágúst sem heimilt er.

DEILA