Stangveiði 2020: 957 laxar veiddir á Vestfjörðum

Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út skýrslu um stangveiðina á síðasta ári. Samantektin er byggð á því sem skráð er í veiðibækur.

Sumarið 2020 var stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 45.124 laxar, af þeim var 22.327 sleppt og var heildarfjöldi landaðra stangveiddra laxa (afli) 22.797. Laxveiði á stöng var 3.510 löxum eða 8,4% yfir meðalveiði áranna 1974 til 2019 (41.614 laxar) og 35,2% aukning frá árinu 2019 (29.129 laxar).

Laxveiðar eru heimilar í allt að 105 daga á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert.

Árið 2020 var ársmeðalhiti yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðaltali síðustu tíu ára. Hlýrra var á austan‐ og norðaustanverðu landinu en kaldara suðvestan‐ og vestanlands.

Frá árinu 1996 hefur hlutfall þeirra fiska sem sleppt er í stangveiði aukist jafnt og þétt en það getur haft áhrif á veiðitölur þar sem sömu laxfiskar geta veiðst oftar en einu sinni og þarf að hafa það í huga þegar veiðitölur eru notaðar fyrir mat á stofnstærð.

Á Vestfjörðum er laxveiðin tiltölulega lítil miðað við flesta aðra landshluta, sem er svo ástæða þess að sjókvíaelda með frjóan lax var heimilað árið 2004.

Á Vestfjörðum voru veiddir 957 laxar, sleppt var 365 löxum og afli var 592 laxar. Þrjár efstu veiðiárnar á Vestfjörðum voru Víðidalsá, Þverá, og Húsadalsá með 154 laxa, Laxá í Hrútafirði með 145 laxa og Laugardalsá með 112 laxa.

237 laxar í Ísafjarðardjúpi

Á ánum þremur í Ísafjarðardjúpi sem Hafrannsóknarstofnun vakar sérstaklega vegna áforma um sjókvíaeldi í Djúpinu veiddust samtals 237 laxar. Í Laugardalsá veiddust 112 laxar, í Langadalsá 107 laxar og í Hvannadalsá aðeins 18 laxar.

Rúmum helming veiddra laxa var sleppt eða 140 löxum af 237. Landað var samtals 97 löxum sem samtals vógu um 300 kg. Mest var landað úr Laugardalsá 85 löxum, 9 löxum úr Langadalsá og 3 löxum úr Hvannadalsá.

Þessar tölur eru talsvert frá meðaltalsveiði áranna 1984-2020. Meðaltalið í Laugardalsá er 281 lax, Langadalsá 205 laxar og 122 laxar í Hvannadalsá. Samtals er meðaltalsveiðin þessi 37 ár 608 laxar í ánum þremur.

Veiðin í fyrra var aðeins 39% af meðaltalinu yfir árabilið.

Engar upplýsingar eru gefnar í skýrslunni um verðmæti stangveiðinnar, svo sem tekjur veiðiréttarhafa af sölu veiðileyfa og af annarri þjónustu. Hvorki Fiskistofa né Hagstofa Íslands geta gefið neinar upplýsingar um tekjur og umfang af stangveiðinni.

Burðarþolsmat fyrir Ísafjarðardjúp gefur að þar megi rækta árlega 30.000 tonn af laxi í sjókvíum. Vegna reiknaðrar áhættu á erfðablöndun milli ræktaðs lax og villts lax sem gengur í árnar hefur Hafrannsóknarstofnun lækkað í varúðarskyni heimildirnar fyrir eldið niður í 12.000 tonn árlega. Það lækkar árlegar útflutningstekjur af eldinu í Djúpinu um 15 – 18 milljarða króna.

DEILA