Skógarþröstur

Hinn söngfagri fugl, skógarþröstur, er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og jafnframt algengur í görðum í þéttbýli. Hann er meðalstór spörfugl, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars er ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan.

Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlfuglinn að syngja og helga sér svæði. Hann er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í flokkum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri.

Fæða og fæðuhættir:
Bæði dýra- og jurtaæta, fuglarnir eta skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæða ungana á þeim. Síðsumars leggjast þeir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag.

af fuglavefur.is

DEILA