Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fer fram 16. – 19. júní næstkomandi og þar gefst flokksbundnum sjálfstæðismönnum kostur á að hafa áhrif á hvaða einstaklingar skipa framboðslista flokksins í komandi þingkosningum. Það eru margir öflugir einstaklingar sem bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þessu sinni og einn af þeim er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún er kraftmikill stjórnmálamaður sem sækist eftir að skipa fyrsta sæti listans og verða þannig leiðtogi sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Við sem þetta skrifum styðjum hana í þeirri vegferð. Þórdísi þarf vart að kynna fyrir kjósendum í okkar kjördæmi, hún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og er ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún er vandaður einstaklingur sem lætur verkin tala.
Það liggja nokkrar ástæður að baki því af hverju við styðjum Þórdísi Kolbrúnu. Fyrst og fremst er Þórdís Kolbrún einstaklega hæfur og vandaður einstaklingur og stjórnmálamaður sem lætur verkin tala. Hún þorir að taka erfiðar ákvarðanir og má þar nefna þær breytingar sem hún hefur komið til leiðar í nýsköpunarmálum þar sem ríkisstofnun var skipt upp í þeim tilgangi að efla nýsköpunarstarf. Sem ráðherra ferðamála hefur Þórdís Kolbrún ekki bara náð utan um uppbyggingarstarf ferðamála heldur einnig stóraukið fjármagn til ferðamála í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Uppbyggingarverkefni ferðamannastaða hafa verið henni hugleikin en eitt af stærstu verkefnum sem nú er unnið að er bygging útsýnispalls á Bolafjalli sem mun auka aðdráttarafl ferðamanna til Vestfjarða um langa framtíð.
Góður fulltrúi kynslóðaskipta í Sjálfstæðisflokknum
Þá þykir okkur vera kominn tími á að kona leiði lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hingað til hafa karlar ætíð leitt lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Nú höfum við hinsvegar tækifæri til þess að kjósa kraftmikla konu til forystu í okkar kjördæmi. Þórdís Kolbrún tilheyrir jafnframt yngri kynslóð þingmanna og er góður fulltrúi kynslóðaskipta í Sjálfstæðisflokknum. En Þórdís Kolbrún er ekki bara ung kona heldur er hún fyrst og fremst afar öflugur stjórnmálamaður sem nýtur mikils trausts samþingmanna sinna og hefur gegnt embætti ráðherra í þeirra umboði í síðustu tveimur ríkisstjórnum.
Á næstu helgi tökum við þátt í prófkjöri og veljum fólk til forystu í okkar kjördæmi. Það er kjörið tækifæri hjá okkur til að stilla upp ferskum reynslu miklum lista með öflugri forystu. Við hvetjum flokksmenn og þá sem vilja skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn til að taka þátt í prófkjörinu og setja Þórdísi Kolbrúnu í fyrsta sæti.
Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkur og
Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.