Samfylkingin á Vestfjörðum harmar tafir á vegagerð um Teigsskóg

Aðalfundur Samfylkingarinnar á Vestfjörðum, sem haldinn var á dögunum , harmar þær tafir sem orðið hafa á lagningu vegar um Teigsskóg en fagnar því að loks sér fyrir endann á rúmlega tveggja áratuga undirbúningi og hvetur stjórnvöld til að ljúka tafarlaust lagningu vegarins ásamt öðrum brýnum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum. 

Aðalfundurinn ályktaði einnig um fiskeldi og uppbyggingu raforkukerfisins.

Fiskeldi helsti vaxtarbroddur atvinnulífs

Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins á Vestfjörðum og er sjálfbær uppbygging atvinnugreinarinnar eitt stærsta hagsmunamál svæðisins.

Samfylkingin á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að efla rannsóknir og auka eftirlit í fiskeldi og um leið vinna að því að regluverkið í því verði bæði skilvirkt og sanngjarnt. Með því er betur tryggt að það haldi áfram að vaxa í sátt við umhverfi, mannlíf og náttúru á Vestfjörðum.  

Gjaldtaka hins opinbera af fiskeldi þarf einnig að renna á réttlátan hátt til sveitarfélaga þannig að þau njóti eðlilegrar hlutdeildar af henni. 

Efla uppbyggingu raforkukerfisins

Efla þarf uppbyggingu raforkukerfisins og styrkja afhendingaröryggi þess. Einnig þarf að tryggja aukið aðgengi að raforku í fjórðungnum. 

Ný stjórn

Á fundinum var einnig kosin ný stjórn félagsins.

Formaður var kosinn Gylfi Þór Gíslason.

Aðrir í stjórn voru kosnir: Bryndís Friðgeirsdóttir, Emil Emilsson, Guðrún Anna Finnbogadóttir og Lína Tryggvadóttir.

Í varstjórn voru kosin Gunnhildur Björg Elíasdóttir og Magnús Bjarnason.