Nýir nemendagarðar á Flateyri

Myndin sýnir fyrirhugðuð hús Yrkis sem sett eru inn í mynd Bjarna Sveins Benediktssonar af húsum við Hafnarstræti.

Aðalfundur Lýðskólans á Flateyri var haldinn á laugardaginn , en skólinn er nú að ljúka sínu þriðja starfsári.

Nýlega fékk skólinn viðurkenningu Menntamálastofnun sem lýðskóli samkvæmt nýjum lögum um það skólastig, fyrstur lýðskóla á Íslandi. Rekstur skólans er í jafnvægi og það er metaðsókn fyrir næsta skólaár. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur framlengt rekstrarsamning við skólann fyrir næsta skólaár og vinnur að gerð langtímasamnings.

Á fundinum voru kynntar fyrstu tillögur að nýjum nemendagörðum fyrir skólann sem nú bíða afgreiðslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ef af verður yrðu það fyrstu íbúðarhúsin sem byggð eru í þorpinu frá 1997. Yrki arkitektar hanna húsin þrjú sem áformað er að byggja næsta vetur erlendis, flytja með skipi á Flateyri næsta vor og taka í notkun í ágúst 2022.

„Þetta eru allt stórir áfangar í stuttri sögu skólans“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðskólans á Flateyri. „Viðurkenning á skólanum, samningur við Mennta og menningarmálaráðuneytið og nýir nemendagarða munu tryggja framtíð skólans sem þegar hefur sannað tilveru sína í íslenska skólasamfélaginu auk þeirra samfélagslegu áhrifa sem skólinn hefur haft hér á Flateyri.“

DEILA