Miðflokkurinn: leggur til hringtengingu rafmagns um Vestfirði

Allir níu þingmenn Miðflokksins undir forystu Bergþórs Ólasonar hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Í tillögugreininni segir:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja Vestfirðingum sama afhendingaröryggi rafmagns og öðrum landsmönnum með því að koma á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Í greinargerð með tillögunni segir :

„Á Vestfjörðum hefur afhendingaröryggi rafmagns lengi verið lakara en annars staðar á landinu. Vestfirðingar eru háðir innflutningi orku af meginflutningskerfi landsins og þaðan fá þeir ríflega 40% þeirrar raforku sem notuð er í landshlutanum. Enginn landshluti á að þurfa að búa við slíkt ástand en þrátt fyrir að margir hagkvæmir virkjunarkostir séu á Vestfjörðum hefur ekki náðst sátt um nýtingu þeirra. Því er nauðsynlegt að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með hringtengingu. Til þessa hafa forsendur útreikninga Landsnets gengið út á að Hvalárvirkjun geti rekið kerfið á Vestfjörðum ef það einangrast frá meginflutningskerfinu án þess að til truflunar komi á afhendingu raforku. Mikil óvissa ríkir nú um virkjun Hvalár og því er nauðsynlegt að koma á öflugri hringtengingu, óháð því hvort af virkjun Hvalár verður eða ekki.
Með hringtengingu er átt við að orka geti borist úr tveimur áttum en ekki einni. Verði bilun á annarri línunni berst rafmagn áfram með hinni. Nú kemur allt aðflutt rafmagn til Vestfjarða með einni línu, Vesturlínu. Hún er rúmlega 161 km löng, milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjunar, og liggur yfir svæði sem er bæði veðurfarslega og landfræðilega erfitt.
 Samkvæmt úttekt Vestfjarðastofu er helsti vandi Vestfirðinga í raforkumálum afhendingaröryggi orkunnar en Vestfirðir eru háðir innflutningi á orku af meginflutningskerfi landsins. Tíðar rafmagnstruflanir eru dýrar og standa bæði vexti og rekstri atvinnulífs fyrir þrifum. Fyrirtæki á Vestfjörðum þurfa reglulega að kljást við spennuflökt og útslátt. Spennuflökt veldur umtalsverðu tjóni á viðkvæmum tölvustýrðum vélum og flestum tölvubúnaði. Slíkt kostar fyrirtæki á svæðinu umtalsverðar upphæðir á hverju ári en þegar rafmagn slær út felst alltaf tjón í því fyrir fyrirtækin. Gera má ráð fyrir töf í hvert sinn og á meðan eru flestir starfsmanna verkefnalausir. Síðar þarf að endurræsa vélar og hönnuðir og forritarar þurfa að vinna upp það sem ekki var vistað. Þetta hefur í för með sér vinnutap með reglulegu millibili. Kælar, frystivélar og annar vélbúnaður er sömuleiðis viðkvæmur fyrir flökti á rafmagni.“