Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra kynnti í gær um 29 verkefni sem fá úthlutun úr Lóu-nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina.
Hlutverk styrkjanna er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæðanna sjálfra. Verkefni í öllum landshlutum hljóta styrk og nema hæstu styrkir 10 milljónum króna.
Verkefnin sem hljóta styrk eru af margvíslegum toga og til marks um fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Sem dæmi má nefna styrk til uppbyggingar velferðartæknimiðstöðvar á Norðurlandi eystra, þróunvettvangs sjávarlíftækni í Vestmannaeyjum, nýsköpun í vinnslu skógarafurða á Austurlandi og uppbyggingu vistkerfis orkuskipta á Vestfjörðum.
Styrkirnir voru auglýstir í febrúar en ákveðið var að hækka þá upphæð sem til ráðstöfunar er um helming. Þetta var gert í ljósi mikillar aðsóknar, en alls bárust 236 umsóknir í Lóu. Í þessari fyrstu úthlutun fá verkefnin styrki sem nema rúmum 147 milljónum króna. Matshópur fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.
Hæst styrkina kr. 10 milljónir fengu Velferðartæknimiðstöð á Norðurlandi eystra (Veltek) og Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV).
Á Vestfjörðum fengu Blábankinn- Samfélagsmiðstöð á Þingeyri 7 milljónir, Blámi, vistvæn orkuskipti, Eldey Aqua þararækt, og True Westfjords -D styrktur Dropi hvert um sig 6 milljónir og Djúpið samfélagsmiðstöð fékk 4 milljónir.